133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

framkvæmd þjóðlendulaga.

[11:13]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Lög um þjóðlendur voru sett árið 1998 til að eyða réttaróvissu og skýra eignarhald þjóðarinnar á hálendinu. Með þjóðlendulögunum er sameign þjóðarinnar á hálendinu tryggð til framtíðar sem ein af sameiginlegum auðlindum landsmanna allra, rétt eins og nytjar sjávar, hafsbotninn, jarðhitinn og fallvötn Íslands.

Frá því að lög um þjóðlendur voru samþykkt hefur ríkisvaldið hins vegar farið fram af offorsi gegn bændum og landeigendum í stað þess að sýna meðalhóf og sanngirni gagnvart þeim. Gerðar hafa verið harkalegar kröfur sem eru þvert gegn tilgangi og anda laganna og því hefur framkvæmd laganna verið með nokkrum ólíkindum, svo hóflega sé til orða tekið.

Þess má geta að Hæstiréttur hafnaði fráleitri kröfugerð ríkisvaldsins á hendur bændum í Árnessýslu í fyrstu lotu þessara málaferla, en samt er haldið áfram af sömu óbilgirninni. Lögunum sem er ætlað að skera úr um mörk eignarlanda og þjóðlendna hefur sumpart verið snúið upp í hernað gegn þinglýstum eignum bænda og landeigenda. Ríkið gerir kröfur á land sem er 400 metra yfir sjávarmáli, allt land, og sums staðar er farið niður í 100 metra yfir sjávarmáli og reyndar allt niður að sjó fram í einu tilfelli.

Nú er málsmeðferð hafin á svæði 6, sem er austanvert Norðurland, en lokið á svæðum 1–4, sem er allt Suðurland og Reykjanesið. Því er vert að staldra við og fara fram á að ríkisvaldið meti og endurskoði málatilbúnaðinn frá grunni. Öllu hefur verið snúið á hvolf í málsmeðferð óbyggðanefndar, landeigendur þurfa að sanna að þeir eigi landið og þinglýst landamerkjabréf frá 19. öld og fram á þá 20. í sumum tilfellum ekki tekin gild. Sönnunarbyrðinni er snúið við og í raun tekinn upp tvöfaldur eignarréttur í landinu, einn í þéttbýli og annar í dreifbýli. Hæstiréttur leggur sönnunarbyrðina alfarið á landeigendur og hirðir lönd allt niður að sjó, eins og áður er getið um, þrátt fyrir að allt að órofa eignarhald um árhundruð sé til staðar.

Annað dæmi er af Stafafelli í Lóni þar sem ríkið sjálft seldi jörðina fyrir tæpum 100 árum, árið 1913, kemur svo öld síðar, hirðir stóran hluta jarðarinnar þrátt fyrir ágreiningslaus eignarmerki og hirðir nú bótalaust. Landeigendur hafa leitað réttar síns til Mannréttindadómstóls Evrópu og beðið er málsmeðferðar þar enda merkilegt prófmál á ferðinni.

Að mínu mati er ólíklegt að málatilbúnaðurinn gegn eignarrétti bænda og landeigenda standist að öllu leyti stjórnarskrá og sé þá jafnvel brot á mannréttindum. Því getur málafylgjan öll haft alvarlegar afleiðingar fyrir íslenska ríkið þegar upp verður staðið. Þetta er sérkennilegt jafnræði hjá stjórnvöldum og hlýtur að kalla á gagngera endurskoðun á framgöngu og framferði stjórnvalda gegn landeigendum og bændum.

Hálendið er sameign þjóðarinnar allrar. Tilgangur laganna var að skýra það og skilgreina, um það var samstaða á þingi árið 1998. Tilgangurinn var að eyða réttaróvissu og koma skipulagsmálum á hálendinu á hreint. Það er hins vegar framkvæmd laganna sem hefur verið með ólíkindum og nefnd á vegum fjármálaráðherra og ríkisvaldsins og ríkisstjórnarinnar allrar að sjálfsögðu farið offari gegn landeigendum og bændum. Þjóðlendulögin veita ríkinu ekkert skjól til slíkrar framgöngu, það er morgunljóst. Þeirri herferð á og verður að ljúka.

Af þessu tilefni tók ég málið upp utan dagskrár á Alþingi til að ræða framkvæmd laganna og beini eftirfarandi spurningum til hæstv. fjármálaráðherra sem fer með framkvæmd laganna, fer með málatilbúnaðinn gagnvart bændum og landeigendum og ber að sjálfsögðu ábyrgð á því öllu saman rétt eins og ríkisstjórnin öll.

Spurningarnar sem ég beini til hæstv. ráðherra eru:

1. Stendur til að endurskoða framkvæmd laga um þjóðlendur í ljósi reynslunnar?

2. Telur hæstv. ráðherra að meðferð eignarréttar í málafylgju óbyggðanefndar standist að öllu leyti stjórnarskrá?

3. Í framkvæmd nefndarinnar hefur ríkið gert kröfur á allt land sem er 400 metra yfir sjávarmáli og sums staðar farið í 100 metra yfir sjó. Því spyr ég hæstv. ráðherra hvort ekki þurfi að endurskoða slíkar kröfugerðir.

4. Landeigendur þurfa að sanna að þeir eigi landið og þinglýst landamerkjabréf frá 19. öld og fram á þá 20. eru ekki tekin gild. Kallar það ekki á endurskoðun þeirrar málsmeðferðar allrar að mati hæstv. fjármálaráðherra?