133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

framkvæmd þjóðlendulaga.

[11:24]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Setning þjóðlendulaganna var þarft framtak á sínum tíma. Enginn getur mælt því í móti að það var og er þarft að koma eignarmörkum á hreint og ég held að þjóðin sé almennt mjög sátt við það að miðhálendið og meginöræfi landsins séu þjóðlendur og það er ég að sjálfsögðu. Almenningar eru þekkt fyrirbæri úr okkar rétti, land sem enginn tiltekinn á í einkaeignarréttarlegum skilningi og það er þá auðvitað eðlilegast að líta á það sem ævarandi og óskiptanlega sameign þjóðarinnar.

Hitt er annað mál hvernig framkvæmd þessara laga hefur tekist og hefur þróast. Það veldur vonbrigðum, svo vægt sé til orða tekið, að ekki skuli hafa reynst fært að þróa framkvæmdina þannig, m.a. í ljósi reynslunnar sem fengin er og með hliðsjón af gengnum úrskurðum og endurteknum dómum Hæstaréttar sem ætla hefði mátt að hefðu nægjanlegt fordæmisgildi til að sættir eða sáttafarvegur sem lögin gera ráð fyrir reyndist fær í fleiri tilvikum. Málin mætti væntanlega undirbúa betur, eins og reyndar kom fram í máli hæstv. fjármálaráðherra áðan, til að gera það tímabil sem óvissa og íþyngjandi kvaðir sökum þinglýstra krafna ríkisins veldur. Það er því sjálfsagt og eðlilegt á þessu stigi málsins að yfir það verði farið hvort einfalda megi framkvæmdina og gera hana léttari í vöfum að þessu leyti þannig að betri sátt takist um framkvæmdina.

Loks skiptir framhaldið miklu máli. Gleymum því ekki að þjóðlendurnar eru að verða til, og það er mikilvægt að vandlega verði yfir það farið hvernig eigi að fara með þær, hver ætlar að gæta þeirra. Ég vil leggja það til að þar taki ríkið upp viðræður við sveitarfélögin í þeim tilvikum sem þjóðlendur (Forseti hringir.) liggja úti í byggð eða nálægt byggðum um að sveitarfélög geti í einstökum tilvikum farið með þau svæði í samstarfi við ríkið.