133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

framkvæmd þjóðlendulaga.

[11:30]
Hlusta

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Áratugum saman var reynt að ná samstöðu um með hvaða hætti væri unnt að staðfesta eignarhald þjóðarinnar á landi. Þegar forsætisráðherra kom loks fram með frumvarp um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta, sem varð að lögum 1998 studdi stjórnarandstaðan öll það frumvarp þó að þær breytingartillögur sem við fluttum væru allar felldar. Málið hefur allar götur síðan verið í höndum stjórnvalda.

Okkur jafnaðarmönnum er málið afar hugleikið. Skilgreining á sameign þjóðarinnar á landi í óbyggðum og í afréttum var í áratugi mikið baráttumál jafnaðarmanna undir fyrirsögninni „Land í þjóðareign“. Það var komið fram undir aldamót, virðulegi forseti, þegar þessi löggjöf gaf okkur tæki til að leiða til lykta hvaða land væri þjóðarinnar og hvað væri land í einkaeign. Það hefur ekki komið á óvart að þetta yrðu erfið og oft á tíðum umdeild mál, það liggur í eðli ágreinings um eignarhald. Hins vegar vekur það undrun að ríkið, óbyggðanefndin hefur notað þær starfsaðferðir sem hv. þm. Samfylkingarinnar, Björgvin G. Sigurðsson, hefur svo ágætlega greint frá í framsögu sinni.

Í svona málum gefst illa að beita offorsi og ósanngirni í upphafi í vinnubrögðum en að sjálfsögðu hefur Hæstiréttur síðasta orðið eins og hér hefur komið fram. Í fyrradag var rætt hér á Alþingi frumvarp um Vatnajökulsþjóðgarð. Innan fyrirhugaðra marka hans verða bæði þjóðlendur og lönd í einkaeign. Samvinna þarf að nást um meðferð þessara landa. Það er því gífurlega mikilvægt varðandi þá vinnu sem fram undan er að fá niðurstöðu í landamarkamál á því víðfeðma svæði sem falla á undir þjóðgarðinn. Þess vegna hvet ég til faglegri vinnubragða í þessu máli.