133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

framkvæmd þjóðlendulaga.

[11:35]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það er í sjálfu sér áhyggjuefni hversu margar rangfærslur hafa heyrst í máli þeirra sem hafa gagnrýnt framkvæmd þjóðlendulaganna en það bendir til þess að kynning á því ferli öllu saman hafi verið ónóg og að hún hafi verið einhliða þar sem ríkið hefur sjaldan haft fyrir því að leiðrétta rangfærslurnar og rangtúlkanirnar. Almenningur hefur að mínu mati þannig ekki fengið rétta mynd af ferlinu. Í mínum huga hefði ráðherrann getað nýtt sér oftar þau tækifæri sem hann hefur haft til að lýsa t.d. framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar varðandi þjóðlendurnar og stjórnsýslu þeirra. Hann fer jú með þjóðlendumálin fyrir hönd almennings, almennings sem væntir þess að sameign þjóðarinnar og sameiginlegt tilkall hennar til öræfanna verði staðfest á grundvelli þjóðlendulaganna.

Það er eðlilegt að kallað sé eftir vandaðri undirbúningi og hæstv. ráðherra hefur lýst því yfir að hann sé með slíka hluti í skoðun. Ég skil reyndar ekki alveg hvað hann átti við áðan, hvernig hann sér fyrir sér það sem gera þurfi, en ég tel einboðið að hann beiti sér fyrir því að landeigendur fái ráðrúm til að kynna sér þau gríðarlegu gögn sem safnað er í Þjóðskjalasafninu áður en krafa ríkisins er birt. Ég held að slíkt gæti gefið fólki a.m.k. þrjá til sex mánuði aukalega í ráðrúm til að undirbúa mál sín, bara þetta mundi auðvelda landeigendum vinnuna. En það að ætla sér að breyta framkvæmd laganna í grundvallaratriðum núna er að sjálfsögðu ógerlegt auk þess sem það væri ekki nóg að bakka aftur til ársins 1998 þegar lögin voru sett, það þyrfti í raun og veru að fara aftur fyrir hæstaréttardómana sem byrjuðu að falla um miðja síðustu öld.

Í mínum huga er nauðsynlegt að klára þetta eftir þeim lögum sem við höfum núna og ég minni fólk á það að landamerkin eru misvísandi, um þau stendur styr og það eru ólíkar túlkanir á landamerkjunum en í þeim dómum sem fallið hafa hefur langoftast verið felldur dómur um það að þinglýst landamerki standist.