133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

framkvæmd þjóðlendulaga.

[11:37]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F):

Hæstv. forseti. Nú gerðist það óvenjulega í þessari umræðu að ég get nánast tekið undir hvert einasta orð sem fram kom í málefnalegri ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar. Frá upphafi hef ég gagnrýnt kröfugerð fjármálaráðuneytisins í þinglýst eignarmörk bújarðanna og talið að kröfugerðin hafi verið óbilgjörn og ekki alveg í anda laganna og alls ekki í anda samstarfs bænda og ríkisvalds sem stóð hér í áratugi um hvernig yrði farið í þetta vandasama mál, hundrað ára deilur, þúsund ára sögu, þannig að mér fannst í upphafi að vegferðin væri önnur en menn voru að fara í.

Tilgangur laganna var sá að tryggja eignarmörk bújarðanna og að hvergi léki vafi á um eignarrétt jarðeigenda. Það er orðin staðreyndin að í langflestum tilvikum hafa málin fallið þannig og verið leidd til lykta fyrir óbyggðanefnd og dómstólum að eignarmörkin hafa haldið. Ríkisstjórnarflokkarnir og bændur urðu sammála um að allt land heyrði undir sveitarfélög og að bændur hefðu þann afnotarétt að afréttum eins og þeir hafa haft í þúsund ár. Þessi atriði bæði voru sett í lög í upphafi málsins. Um leið hættu menn að takast á um hálendið, hver ætti það, og með löggjöf var það gert að þjóðarlandi sem við Íslendingar eigum sem sameign í dag og kallast þjóðlenda.

Fagna ber nú áformum um stofnun Landssambands jarðeigenda. Ríkisstjórnin er sammála um að ganga til samstarfs og viðræðna við þau samtök um þessi viðkvæmu mál. Ég tel það mjög mikilvægt. Ég vil líka alveg sérstaklega fagna breyttum viðhorfum sem hafa komið fram hjá núverandi fjármálaráðherra og þeim tillögum sem hann hefur kynnt í dag og á síðustu vikum um hvernig megi með nýjum og mildari hætti fara í þessi mál þannig að ekki verði farið jafnmikið offari og gert hefur verið. Ég vil að bændur og jarðeigendur viti að það er alveg klárt að Framsóknarflokkurinn, stjórnarflokkarnir og þingið fóru ekki í þessa vegferð til þess að reyna að vinna land af bændum eða jarðeigendum heldur til að tryggja þetta mikilvæga mál.

Ég vil hér í lokin segja: (Forseti hringir.) Landeigendur munu í gegnum þessa erfiðu vegferð treysta eignarrétt sinn og geta þess vegna í lok þessarar vinnu staðið öruggari gagnvart pólitískum vindum og dómstólum í framtíðinni.