133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

framkvæmd þjóðlendulaga.

[11:40]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka ágæta og prýðilega umræðu um þetta mál. Hæstv. landbúnaðarráðherra komst svo að orði áðan að vonandi færi þessu offorsi gagnvart bændum að ljúka. Hv. þm. Jón Kristjánsson harmaði logandi átök sem væri teflt í ófrið og átök, þessu yrði að fara að linna. Það er nákvæmlega kjarni málsins. Það er málatilbúnaðurinn sem er ríkisvaldinu fullkomlega til vansa og það er það sem við erum að ræða um í dag.

Þess vegna var sérkennilegt að heyra skeytingarleysið og tóninn í ræðu hv. þm., sjálfstæðismannsins Bjarna Benediktssonar, þegar verið er að ræða um það offors og þá hörku sem ríkisvaldið hefur haldið uppi gagnvart bændum og landeigendum í landinu. Kröfugerðin hefur verið frámunalega harkaleg þar sem línur í henni hafa í mörgum tilfellum verið dregnar án nokkurs tillits til raunverulegrar eignarjarðar landeigandans eða hvað telst vera hálendi og þjóðlenda. Það er þetta sem er ríkisvaldinu til skammar og það er þetta sérkennilega jafnræði sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur stundað í málinu, annars vegar gagnvart landeigendum og hins vegar gagnvart öðrum þegnum í landinu.

Það er í sjálfu sér ánægjuefni að framsóknarþingmennirnir skuli taka þetta eindregið undir málflutning okkar um málatilbúnaðinn gagnvart bændum þó svo að þetta hafi að sjálfsögðu verið framkvæmt í skjóli þeirra enda málið allt á forræði ríkisstjórnarinnar allrar og ríkisvaldsins og kröfugerðin sem hefur staðið yfir núna í sjö, átta ár og við köllum hér eftir að því linni af því að það er ekki tilgangur laganna að fara með ófriði og hörku gagnvart landeigendum og bændum heldur að skýra og skilgreina mörkin á milli eignarlands og þjóðlendna.

(Forseti (SP): Forseti biður hv. þingmenn um að hafa hljóð hér í hliðarsölum.)