133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

sameining Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands.

431. mál
[11:53]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að segja það alveg eins og er að mikið er þetta frumvarp miklu betur unnið og betra að inntaki og allri efnisáferð en ýmis þau frumvörp sem hér hafa töluvert verið til umræðu af hálfu hæstv. menntamálaráðherra. Sú hugmynd sem hér er lögð fram er sjálfsagt góðra gjalda verð. Markmið hennar á að vera að bæta kennaramenntun á Íslandi og það er göfugt markmið. Ég dreg það ekki í efa að skrifaðar hafi verið skýrslur enda hef ég lesið á minnisblaði og skýrslu sem fylgir með í frumvarpinu fýsileika þess að gera þetta og það er jákvætt frá sjónarhóli skólanna tveggja að dómi stjórnenda skólanna.

Það sem mér finnst að eigi að vera meginmarkmið með sameiningu af þessu tagi, ef menn á annað borð fallast á hana, er að hún komi þeim verulega til góða sem eru að afla sér menntunar innan skólanna. Mér finnst svolítið skorta á það hjá hæstv. menntamálaráðherra að hún skýrði það nákvæmlega eða a.m.k. ítarlegar hver ávinningurinn er fyrir þá sem verða sér úti um kennaramenntun í skólanum. Mér þætti vænt um að hún mundi kannski í örstuttu máli, af því að hún er bæði skýrmælt og hagmælt, útskýra þetta fyrir mér.

Í annan stað langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra hvort þessi breyting kunni að tengjast möguleikanum á því að lengja kennaranámið upp í fimm ár sem ég er ákafur stuðningsmaður og baráttumaður fyrir. Og til fróðleiks mér sem gamals nemanda og kennara við Háskóla Íslands, ef af samrunanum og sameiningunni yrði, er þá fyrirhugað að flytja skólann niður í háskólakvosina sem stundum er svo kölluð?