133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

sameining Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands.

431. mál
[12:38]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Frumvarpið sem hæstv. menntamálaráðherra hefur flutt á Alþingi um sameiningu Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands er mjög merkilegt og full ástæða til að taka undir það sem sagt hefur verið í gamansömum tóni, að á móti því frumvarpi sem nýlega var rætt er þetta frumvarp ólíkt betra þótt ég viti ekki hvort meðaltalið kemst upp í 50% við það. Ég geri mér ekki alveg grein fyrir því. Ég held að hér sé hreyft þörfu og góðu máli um sameiningu þessara tveggja háskóla.

Frumvarpið er ekki stórt, aðeins fjórar greinar, en með því fylgir mikið af gögnum, þar á meðal fýsileikaskýrsla sem nefnd um sameiningu Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands skilaði af sér. Við lestur þeirrar skýrslu sér maður að margt, ef ekki allt, mælir með því sem hér er sett fram. Ég vil þó hafa þann fyrirvara á að frumvarpið á eftir að fara til hv. menntamálanefndar. Ég tek undir margt af því sem þeir hv. þingmenn, flokksbræður mínir og jafnaðarmenn, hv. þm. Einar Már Sigurðarson og Björgvin G. Sigurðsson hafa farið yfir.

Með því sem hér um ræðir gefst möguleiki á að endurskipuleggja allt nám í uppeldis- og menntunarfræðum, þar með talið starfsnám kennara. Fram kemur að hægt sé að ná þeim markmiðum og farsælast sé að reka almennan deildaskiptan háskóla fremur en einn sérhæfðan kennaraháskóla. Nefndin álítur að sameining skólanna gæti, ef vel er að verki staðið, orðið til þess að koma í gang öflugri háskólastofnun sem hefði alla burði til að standast alþjóðlegan samanburð í kennslu og rannsóknum í þágu íslensks samfélags.

Eitt af því mikilvægasta sem hér kemur fram er að eftir að framangreind fýsileikaskýrsla lá fyrir, hefur háskólaráð beggja háskólanna lýst vilja sínum til þess að haldið verði áfram með málið á grundvelli þessara niðurstaðna. Ég fagna því sem hér er komið fram en ítreka fyrirvara mína varðandi það sem gæti komið í ljós við vinnslu menntamálanefndar.

Virðulegi forseti. Í fýsileikaskýrslunni er talað um að skapa aukin tækifæri fyrir nemendur í ólíkum deildum sameinaðs háskóla til að tengja nám sitt og kennaranámið. Það er mjög mikilvægt. Auk þess á það að styrkja kennslu og rannsóknir í uppeldis- og menntunarfræðum og skapa forsendur fyrir samþættingu slíkra rannsókna við aðrar rannsóknir sem stundaðar eru í sameinuðum háskóla. Þarna geta aukist möguleikar fyrir kennaranema til að komast í rannsóknafé sem háskólinn hefur og á að hafa. Einnig er talað um að efla stoðþjónustu í sameinuðum háskóla og auka stuðning við nemendur og starfsfólk. Það er mikilvægt.

Jafnframt er fjallað um viðfangsefnin, að þessi ákvörðun verði tekin og síðan unnið eftir tímasettri aðgerðaráætlun og samningum. Hér kemur fram að gildistíminn verði 1. júlí 2008. Ég tel gott að gefa þessu tíma til að vinna málið vel. Ég legg áherslu á það sem hér kemur fram, að þetta sé unnið í nánu samráði við starfsfólk skólanna og síðast en ekki síst stúdenta. Ég vil segja, virðulegi forseti, að ég held að það sé mjög mikilvægt að það sé gert strax frá samþykkt þessa frumvarps, ef af lögum verður á þessu þingi, að þeir aðilar sem komi að þessum málum, þar með taldir stúdentar, vinni að því strax frá byrjun. Ég tel að það sé líklegra til að skapa víðtæka og góða sátt um þetta mál.

Jafnframt er rætt um það, virðulegi forseti, í kaflanum um viðfangsefnin í fýsileikaskýrslunni að tryggja þurfi að stjórnskipulag sameinaðs háskóla og fjármögnun kennslu og rannsókna á sviði uppeldis-, menntunar- og kennarafræða styrki fræðasviðið frá því sem nú er. Þetta er mikilvægt. Það er enn fremur talað um að fjárveitingar til kennslu í uppeldis-, menntunar- og kennslufræðum skerðist ekki við sameiningu háskólanna. Þarna er fjallað um það og að jafnframt sé mikilvægt að fjárveitingar til rannsókna verði sambærilegar á öllum fræðasviðum hins nýja háskóla. Einnig er talað um það sem ég nefndi áðan, með starfsmennina, að þeir hafi sambærileg kjör í nýjum háskóla.

Síðast en ekki síst, virðulegi forseti, er fjallað um húsnæðismál skólans. Mér finnst afar merkilegt sem þar er sagt, að huga verði að því hvort byggja eigi við starfsemina við háskólann þar sem starfssvið Kennaraháskólans kæmi inn og nota aðstöðu Kennaraháskólans á Rauðarárholti fyrir aðra starfsemi. Ég held að þetta sé mjög mikilvægt að hafa í huga. Líkt og við allar sameiningar af þessu tagi þarf að fá fram fulla hagræðingu í starfseminni með því að hafa hana á sömu lóðinni. Sem stendur er töluvert langt á milli og full ástæða til að skoða þetta og ég held að niðurstaðan verði sú þegar fram í sækir að nauðsynlegt sé að þetta verði gert á þann hátt sem þarna er rætt um.

Í þessu sambandi vitna ég til þess þegar Borgarspítalinn og Landspítalinn voru sameinaðir, hvernig sú starfsemi hefur gengið, sem ég held að hafi að mestu leyti gengið vel. Forsendan fyrir þeirri sameiningu, til að ná fram fullri hagræðingu í meðferðarúrræðum var að nota hið opinbera fé, ekki endilega til þess að spara féð eða að draga úr fjárveitingum til viðkomandi stofnana. Ég er alls ekki að tala um að það eigi að gera og á ekki að vera leiðarljós í þessu, heldur að nýta opinbera fjármuni betur. Það er það sem ég tel að hafi verið gert með sameiningu Landspítala og Borgarspítala á sínum tíma, en sú fulla hagræðing mun ekki nást fram fyrr en við verðum búin að byggja nýjan Landspítala fyrir þjóðina á sama stað eins og áætlanir eru uppi um.

Ég tók líka eftir því áðan, virðulegi forseti, að hæstv. menntamálaráðherra fjallaði, ég held í andsvari, um að ef kemur til lengingar kennaranáms úr fjórum upp í fimm ár þurfi að huga að því gagnvart sveitarfélögunum í landinu. Ég legg áherslu á það vegna þess að við meiri menntun krefjast kennarar hærri launa og eiga að sjálfsögðu rétt á því, en við það verða meiri útgjöld hjá sveitarfélögunum. Ég tek undir þetta og þakka fyrir að þetta hafi verið sagt vegna þess að allt of oft er það þannig hjá hæstv. ráðherrum sem flytja mál á Alþingi, að ekki er gætt að þeim kostnaðarauka sem verður fyrir ýmsa aðila, í þessu tilfelli sveitarfélögin vegna reksturs grunnskóla og leikskóla. Þetta er afar mikilvægt að hafa í huga og fræg eru þau orð sem sveitarstjórnarmenn hafa sagt um grunnskóla, að það sem ekki mátti nefna þegar grunnskólar voru undir hatti menntamálaráðuneytisins er orðið að lögum í dag og skylda sveitarfélaganna. Við vitum að allt grunnskólanám og leikskólanám hefur snarbatnað við færsluna en tekjur hafa ekki að mínu mati fylgt með til sveitarfélaga til að mæta þeim auknu gjöldum sem eru vegna reksturs grunnskóla. Það er m.a. ástæðan fyrir því að mörg lítil sveitarfélög úti um allt land berjast í bökkum fjárhagslega vegna reksturs menntakerfisins og prósentutölur sem sést hafa þar eru allsvakalegar hjá sumum. Þetta er náttúrlega einn af þeim þáttum sem koma inn í mismun og misræmi sem er í rekstri sveitarfélaga eftir því hvort þau eru stór og öflug eins og á höfuðborgarsvæðinu eða lítil sveitarfélög á landsbyggðinni.

Virðulegur forseti. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson nefndi Íþróttakennaraskólann á Laugarvatni, tók hann sem dæmi. Ég tek undir það sem hann sagði og ég vona að það séu ekki vangaveltur um að taka þann ágæta skóla og flytja hann frá Laugarvatni. Hann á hvergi annars staðar heima en þar, er með mikla og góða starfsemi og á að efla hann þar, þó að fara eigi í það sameiningarferli sem hér er verið að tala um.

Ég vil jafnframt segja, virðulegi forseti, þegar talað er um háskólanám að ég hef áður sagt í þessum ágæta ræðustól að stofnun Háskólans á Akureyri og starfsemin þar sé sennilega eitt merkilegasta byggðaátak sem gert hefur verið á Íslandi og kannski það eina sem reglulegt bragð er að. Þegar maður kemur í heimsókn til Háskólans á Akureyri og sér þá miklu fjölgun nemenda sem þar hefur átt sér stað, bæði nemenda á Akureyri í skólanum, svo og þeirra sem eru í fjarnámi, þá er þetta mjög glæsileg starfsemi og mikil. Ég ætla í lokin, virðulegi forseti, ekki að fara að ræða um önnur málefni Háskólans á Akureyri sem oft hefur borið á góma, þ.e. fjárhagsvanda hans, ég ætla ekki að gera það að þessu sinni, ég ætla ekki að skemma þá jákvæðu og góðu umræðu sem er um þetta frumvarp með því að fara inn á það, kannski gefst tækifæri til þess síðar.

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að þeir hv. þingmenn okkar jafnaðarmanna, Björgvin G. Sigurðsson og Einar Már Sigurðarson, sem hafa rætt um þetta mál og sitja í menntamálanefnd fyrir hönd Samfylkingarinnar munu auðvitað fara vel yfir það. Þeir hafa farið í gegnum þessi tæknilegu mál, ég hef farið frekar inn í hinn praktíska þátt. Ég segi enn og aftur í lok ræðu minnar að ég held að sameining Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands sé hið besta mál og vil ljúka máli mínu með því að ítreka það sem ég sagði áðan að þegar og ef frumvarpið verður samþykkt og verður orðið að lögum sé mikilvægt að vinna þetta í fullri sátt og samlyndi við starfsmenn, stúdenta og aðra til að ná fram sem bestum árangri og sem mestri sátt um það mikilvæga mál sem hefur verið flutt á Alþingi.