133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

sameining Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands.

431. mál
[13:29]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég hef fyrr í dag rætt þetta frumvarp sem við erum að reyna að komast til botns í og komast að niðurstöðu um hvort sé jákvætt fyrir menntun í landinu.

Á heildina litið, herra forseti, er ég frekar jákvæður gagnvart þeim hugmyndum sem hér koma fram, þ.e. þeim hugmyndum að sameina Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands. Ég vil þó segja alveg skýrt að mér finnst málflutningur hæstv. ráðherra bera blæ af því að hér sé hún að ráðast í sameiningu sameiningarinnar vegna fremur en að skapa nýjar og fjölþættar námsleiðir fyrir kennaraefni í landinu.

Ég vil líka segja alveg skýrt að ég tel vafamál að það eigi að leggja í þetta ferðalag nema það sé alveg ljóst að búið sé að móta stefnu um þróun kennaramenntunar í landinu.

Ég er sem sagt þeirrar skoðunar að sameiningin kunni að nýtast ákaflega vel ef rétt verður fjárhagslega að henni staðið, ef menn á annað borð hafa tekið ákvörðun um að breyta og bæta kennaramenntun í landinu þannig að námið verði fimm ár. Það liggur við, herra forseti, eftir að hafa hlýtt á umræður hér í dag og heldur snautleg svör hæstv. ráðherra við fyrirspurn minni fyrr í morgun að ég segi það klárt og kvitt að samþykkt þessa frumvarps eigi að vera skilyrt því að ríkisstjórnin lýsi yfir og geri að stefnu sinni að kennaramenntun í landinu eigi að lengja í fimm ár.

Ég spurði hæstv. ráðherra í morgun eftir að hafa hlustað á málflutning hennar um hina jákvæðu ávinninga þessa máls: Hver er ávinningurinn fyrir kennaraefnin í landinu? Ég hugsa að við getum orðið sammála um það að hið jákvæða sem felst í sameiningunni sé m.a. það að kennaraefni eiga völ á miklu fjölbreyttari námsmöguleikum til þess að bæta við grunn- og undirstöðumenntun sína og þannig sérhæfa sig, þ.e. kennarar sem t.d. ætla að sérhæfa sig í raungreinakennslu eigi kost á því að komast miklu betur niður í raunvísindum og þar af leiðandi verða hæfari til að miðla þeirri reynslu og þekkingu til þeirra sem þeir í framtíðinni kenna. Þetta er hið jákvæða við þetta.

Þessi ávinningur mun hins vegar ekki nýtast nema að broti til nema kennaramenntunin í landinu verði efld. Það er þess vegna sem ég segi að sameining háskólanna geti aldrei borið fullan ávöxt nema samhliða verði ráðist í það með fjárframlögum og pólitískri stefnumótun að kennaranám verði lengt.

Þegar við horfum til þeirra þjóða sem best hefur gengið á sviði verðmætasköpunar, þeirra þjóða sem mestum árangri hafa náð hvað menntun áhrærir, festast augu okkar alltaf við eina þjóð. Alveg sama hvaða mælikvarðar eru lagðir á velsæld, þróun menntunar, þróun uppfinninga, þróun viðskiptalífs, alls staðar sjáum við að Finnar, frændur okkar á Norðurlöndum, eru yfirleitt efstir. Það er skammt síðan, herra forseti, að ég las um þetta mikla úttekt í bandarísku tímariti þar sem fimm mismunandi mælikvarðar voru lagðir á getu þjóða og hæfni á hinum ýmsu sviðum, Finnar voru alls staðar númer eitt eða tvö.

Hvað er það sem hefur gert Finnland öðruvísi? Hvað sker það frá öðrum löndum, þjóðum sem við berum okkar stundum saman við? Finnar fóru í gegnum mikinn öldudal upp úr 1990. Í þann mund sem þeir gengu í Evrópusambandið sem margir telja að hafi verið eitt af því sem lagði undirstöðu að framförum þeirra tóku þeir ákvörðun um annað. Þeir tóku ákvörðun um að stokka upp allt sitt nám og menntakerfi. Grundvöllur þeirrar uppstokkunar var tvíþættur, í fyrsta lagi að lengja kennaranámið til fimm ára og í öðru lagi að hækka laun kennara og gera starf þeirra þannig eftirsóknarverðara í augum ungra Finna. Til þessa rekja menn í dag, þessarar undirstöðu, margvíslegar framfarir í finnsku samfélagi á sviði atvinnulífs og reyndar líka á ýmsum öðrum sviðum.

Því segi ég þetta, herra forseti, við eigum auðvitað að taka okkur þetta sem fordæmi. Ég dreg ekki úr því að hæstv. menntamálaráðherra hafi á ýmsum sviðum staðið sig ágætlega að því er menntamálin áhrærir. En mér finnst stundum sem af hálfu ríkisstjórnarinnar skorti heildarsýn og lengri sýn til framtíðar.

Hér hefði ég viljað, herra forseti, sjá þetta frumvarp sem einn lið í fjölþættri pólitískri stefnu af hálfu stjórnvalda sem miðuðu að því að bæta og efla gæði kennaranámsins í landinu og það aftur væri undirstaða að markvissri viðleitni til að auka auðsköpun í samfélaginu sem mundi þá byggjast á hugviti.

Ég er með öðrum orðum að segja, herra forseti, að þessi menntastefna stjórnvalda ætti að vera partur af því að snúa á vit nýrra tíma í atvinnumálum Íslendinga. Við höfum á síðustu árum og áratugum lagt allt okkar fyrst og fremst á tvennt, á sjávarútveg og stóriðju. Ég er þeirrar skoðunar að það sé kominn tími til þess að drepa hér við fótum og segja: Áratugir stóriðjunnar og áratugir sjávarútvegsins sem sóknarfæra í íslensku samfélagi eru með vissum hætti á enda runnir. Við stöndum núna frammi fyrir því að við þurfum að breyta aðeins um stefnu og við þurfum að leggja áherslu á aðra þætti í atvinnulífinu, þ.e. á hátækni og hugvit. Undirstaða þess, eins og ég veit að jafnvel hinir ágætu ungu þingmenn Framsóknarflokksins gera sér grein fyrir, af og til að minnsta kosti — (GÓJ: Af hverju ertu svona rauður?) Það er af því að ég hef rautt bindi, hv. þingmaður, til að undirstrika það að ég er ekki með sömu pólitísku skoðanir og hv. þingmenn Framsóknarflokksins. En ég er þeirrar skoðunar, herra forseti, að við séum að hefja nýtt skeið í atvinnusögu Íslendinga þar sem verður byggt á hátækni. Sú stefna sem minn flokkur, Samfylkingin, mun leggja mesta áherslu á í framtíðinni í atvinnumálum er einmitt hátækni og hugvit og mannauðurinn. Til þess að hægt sé að leggja grunn að þeirri framtíð þurfum við að efla menntakerfið á öllum sviðum. (Gripið fram í.)

Hæstv. menntamálaráðherra hefur á ýmsum sviðum lagt gjörva hönd þar að verki. Hæstv. ráðherra hefur t.d. á umliðnum vikum kynnt að það er verið að veita töluvert meira fjármagn til uppbyggingar Háskóla Íslands og ég fagna því. Við í Samfylkingunni teljum að það sé jákvætt spor og sé með vissum hætti verið að vinna upp ákveðinn mun sem hefur orðið á kjörum og umhverfi Háskóla Íslands og annarra háskóla í landinu. Þetta er mjög jákvætt.

En það er kjölurinn sem þarf að velja viðinn vel í, þ.e. þeir sem eru kennarar í landinu, þeir sem eiga að ala upp hina ungu kynslóð, þurfa að vera afburðamenn. Til þess að þeir verði afburðamenn þarf að búa þeim ákaflega góða menntun sjálfum og það þarf líka að búa þeim góð laun.

Þetta frumvarp sem við erum að ræða hérna, sameining Kennaraháskólans og Háskóla Íslands, gæti verið skref á þessari braut. En ég held því fram, herra forseti, að til þess að við náum algerlega fram ávinningnum sem hugsanlega leiðir af því máli sem hér liggur fyrir þyrfti þetta að vera partur af heildstæðri stefnu varðandi kennaramenntunina og hana finnst mér skorta.

Ég dreg þá ályktun að hana skorti vegna þess að ég spurði hæstv. ráðherra í morgun hvort þetta væri aðeins hlekkur í keðju þar sem annar hlekkurinn væri pólitísk stefnumótun sem fæli í sér yfirlýsingu af hennar hálfu um að kennaramenntunin yrði lengd í landinu og það yrði alveg í gadda slegið að það yrði að minnsta kosti fimm ára nám. Hæstv. ráðherra svaraði því til að það kæmi til greina. Af því svari er ekki aðra ályktun hægt að draga en að um það hafi engin ákvörðun verið tekin. Þetta er eitt af því sem ég tel vera með því mikilvægasta varðandi þennan þátt menntakerfisins.

Mig langar síðan, herra forseti, að spyrja hæstv. ráðherra út í það hver hin næstu skref verði í þessu máli. Ef þetta frumvarp verður samþykkt, sem allt eins gæti orðið á þessu þingi, hver eru þá næstu skrefin?

Það kemur fram í máli hæstv. ráðherra að málið er stutt af bæði Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands. Þó liggur alveg ljóst fyrir að sá stuðningur sem háskólaráð Kennaraháskóla Íslands hefur veitt málinu er skilyrtur. Hann er byggður á því að ljóst verði að hinum nýja sameinaða háskóla verði skipt í skóla þar sem einn skólinn verði eins konar uppeldisvísindaháskóli.

Ég tek hins vegar eftir því þegar maður rennir í gegnum þetta frumvarp og hlýðir á ágætt mál hæstv. ráðherra að þar er lítið gert ráð fyrir þessu. Það er drepið á þetta í aðfara greinargerðarinnar þar sem sleppir þessum ágætu skýrslum tveim sem hér eru birtar. Þá er talað um þetta sem vilja Kennaraháskólans.

En ég hefði talið að ef þetta er ein af forsendunum fyrir stuðningi háskólaráðs Kennaraháskólans hlyti hæstv. menntamálaráðherra að þurfa að gefa yfirlýsingu um það hvort nauðsynlegar breytingar á sérlögum um Háskóla Íslands muni fylgja í kjölfarið. Ég spyr þess vegna hæstv. ráðherra: Ef þetta mál verður samþykkt, hyggst hún þá í kjölfarið leggja fram frumvörp, eða er það ráðgert núna á næstunni, sem fylgja þessu máli eftir? Þannig væri öllum efa hrundið um þá forsendu sem háskólaráð Kennaraháskóla Íslands hefur sett fyrir stuðningi um þetta mál.

Það er líka eftirtektarvert þegar maður fer í gegnum þetta frumvarp og sérstaklega þann part þess sem lýsir fjárhagslegum kostnaði við þetta að ekki virðist gert ráð fyrir því að auknir peningar eigi að koma inn í hinn sameinaða háskóla umfram það sem nú er þegar hvort á sínum staðnum.

Við höfum hér á hverju einasta hausti, hygg ég, alþingismenn, þurft að ræða þá staðreynd að fjölda manna, stundum hundruðum, sem hefur hug á námi við Kennaraháskóla Íslands, hefur þurft að vísa á bug vegna þess að ekki hafa verið fjárveitingar til að standa undir náminu.

Ég hefði talið að ef raunverulegur hugur fylgir máli um að stórefla kennaramenntun í landinu hefði þurft að lýsa því alveg sérstaklega yfir að ráðherrann hygðist beita sér fyrir því að verulegt fjármagn mundi fylgja þessari sameiningu. Það væri gulrót sem mundi virka vel á alla og yrði verulegur akkur fyrir menntun í landinu og þessar tvær stofnanir.

Ég er þeirrar skoðunar að það sem skipti ákaflega miklu máli í menntakerfi okkar sé að efla rannsóknarnám, þ.e. efla þann part háskólanáms þar sem ungir Íslendingar verða sér úti um doktorsgráður og meistarapróf vegna þess að það stig námsins þar sem menn sinna frumrannsóknum er yfirleitt það sem skilar mestu inn í skólana aftur og skilar sér einnig mjög hratt inn í atvinnulífið.

Það sem ég sé nú sem einn aðalkostinn við þetta frumvarp er að það er líklegt til að skjóta miklu styrkari stoðum undir rannsóknarnám við Kennaraháskóla Íslands og innan kennaravísindanna. Ég tel að þeir þverfaglegu möguleikar sem mundu veitast rannsóknarfólki sem sinnti einhvers konar jarðræktarstörfum á sviði uppeldisvísindanna innan slíks háskóla mundu leiða til þess að sennilega færu fleiri í slíkt nám og þeir hefðu miklu fjölbreyttari möguleika á að yrkja sinn svörð. Það sé ég ákaflega jákvætt við þetta frumvarp eins og það liggur fyrir núna.

En mér finnst að til þess að allur ávinningurinn af hugsanlegri sameiningu þessara tveggja skóla gæti orðið að veruleika þyrfti fleira að fylgja. Þá þyrfti að leggja fram styrkari og víðfeðmari heildarsýn um kennaramenntun í landinu og þar er undirstaðan þessi: Yfirlýsing, pólitísk stefnumótun af hálfu ríkisstjórnarinnar um að það eigi að lengja kennaranám í landinu. Þá fyrst getum við landað þeim fiskum sem eru í augsýn þegar þessu er kastað út í hyl menntunarinnar. (GÓJ: Glæsilegt.)