133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

sameining Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands.

431. mál
[14:08]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt, við eigum að efla og bæta innviði íslensku skólanna. Ég gat um það í ræðu minni áðan að við hefðum deilt mjög harkalega um það í fyrra þegar ákveðið var að leggja niður Tækniháskóla Íslands og leggja hann saman við Háskólann í Reykjavík á þeim forsendum að þar væri tækninámið sett inn í einkarekinn skóla og stæði ekki lengur til boða í opinberum háskóla við sömu aðstæður og annað grunnnám í háskóla.

Hins vegar er annað sem ég ætla að spyrja um hér. Á þeim tíma var eins og núna órætt um kosti og galla hinna ýmsu skólasameininga í landinu. Háskólarnir í landinu eru núna átta. Það er Háskólinn á Akureyri, Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri, Háskólinn á Hólum, Háskóli Íslands, Kennaraháskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík, Háskólinn á Bifröst og Listaháskólinn. Þetta eru átta háskólar og af þeim eru nokkrir opinberir, flestir, sex opinberir háskólar. Nú er lagt til að Háskóli Íslands og Kennaraháskólinn sameinist sem ég hef tekið fram að geti vel verið góður kostur og við eigum að skoða gaumgæfilega, en ég spyr hæstv. ráðherra: Á að kanna aðra sameiningarkosti? Hafa aðrir sameiningarkostir verið kannaðir í aðdraganda þessarar tillögu um sameiningu Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands? Og í öðru lagi: Telur hæstv. ráðherrann að það eigi að kanna sameiningarkostina frekar og stefna að frekari skólasameiningu á háskólastigi en orðið er í dag eða er stefnt að með þessu?

Þetta er önnur skólasameiningin á rúmu ári. Tækniháskólinn og Háskólinn í Reykjavík, opinber og einkarekinn, voru lagðir saman. Hér á að sameina tvo opinbera háskóla. Telur ráðherrann að lengra eigi að ganga akkúrat núna en í framtíðinni?