133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

sameining Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands.

431. mál
[14:10]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður sagði svo ágætlega í ræðu sinni áðan að háskólum hefði fjölgað, það væri vel og við hefðum líka þurft á því að halda. Við þurftum á auknu námsframboði að halda og það voru áherslur á að hafa frelsið og flæðið sem mest. Þess vegna spruttu upp þeir háskólar sem eru starfandi í dag.

Síðan sagði hv. þingmaður: Það má segja að næsta skref sé síðan að menn fari að huga að því að sameina og auka samvinnuna milli þessara háskóla. Ég tek undir með hv. þingmanni. Ég held að þetta sé liður í þeirri þróun að við sjáum annars vegar háskóla komast á koppinn og síðan hitt að þegar þeir eru búnir að starfa í ákveðinn tíma leita þeir ákveðinnar, ekki bara hagræðingar, heldur hagræðingar í þágu menntastefnunnar, hvernig þeir geti aukið fjölbreytnina innan veggja sinna. Ég tel tvímælalaust að þessar tvær sameiningar sem ég stend að, núna þessari síðari, muni leiða til þess. Það er ekki verið að sameina til þess að hagræða út frá fjármunalegum hagsmunum, a.m.k. ekki eingöngu. Meginþátturinn, eins og ég talaði um áðan, er þessi menntapólitíski þáttur.

Ég er sannfærð um að sameining Tækniháskólans við Háskólann í Reykjavík hafi líka leitt af sér góða hluti og hafi verið góð og farsæl. Mér finnst miður að hv. þingmenn Samfylkingarinnar hafi ekki getað stutt þá sameiningu, hugsanlega vegna meintrar andúðar sinnar á einkaskólum.

Síðan er hitt, frekari sameining. Ég er tvímælalaust þeirrar skoðunar að þessi sameining muni stuðla að eflingu kennaramenntunar í landinu. Ég sé ekki eins og staðan er núna að við munum huga að frekari sameiningu. Það er miklu frekar að efla samvinnuna þarna á milli. En ég held að fyrsta versið áður en hugað verður að frekari sameiningum sé að setja alla háskóla undir menntamálaráðuneytið.