133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

sameining Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands.

431. mál
[14:12]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna þeirri yfirlýsingu hæstv. menntamálaráðherra að það eigi að sameina allar skólastofnanir undir menntamálaráðuneytið. Ég gagnrýndi í ræðu minni áðan að landbúnaðarráðherra hefði með tvo háskólana að gera. Þeir eiga heima undir eina og sama ráðuneytinu og hér tekur hæstv. menntamálaráðherra undir að það eigi að færa landbúnaðarháskólana tvo undir menntamálaráðuneytið. Það held ég að væri farsælt skref.

En ég vildi hnykkja á því að ég tel að það eigi að fara fram heildstæð úttekt núna, áður en við samþykkjum þetta frumvarp, á öllum kostum sameiningar þó svo að niðurstaðan verði jafnvel sú að við látum þessa sameiningu duga. Ég gat um að háskólarnir eru núna átta. Þeim fækkar niður í sjö. Við eigum að skoða þetta.

Ég gat líka um það að frelsið og smæðin væru jafnframt sóknarfæri og það hefur gefið skólunum kraft og dínamík til að byggjast upp. Við heimsóttum Háskólann á Hólum, nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar í hittiðfyrra, stórskemmtileg dagsheimsókn norður. Þá talaði Skúli Skúlason rektor um sóknarfærin í því að vera sjálfstæður og lítill í jákvæðri merkingu, sérstaklega meðan skólinn væri að fóta sig og verða til sem menntastofnun til framtíðar í staðinn fyrir að heyra undir stærri regnhlíf eins og Háskóli Íslands gæti síðar orðið yfir flestum opinberu háskólunum.

Ég held að það sé líka heppilegt að Háskólinn á Akureyri sé um alla framtíð sjálfstæð menntastofnun. Ég held að það sé partur af að mörgu leyti velheppnaðri og glæsilegri sögu Háskólans á Akureyri, bæði í byggðalegu og menntalegu tilliti, að hann sé sjálfstæð háskólastofnun þó svo að margt annað gæti kannski kallað á sameiningu.

Sameiningin á aldrei að vera á forsendum hagkvæmninnar eða sparnaðar, og alls ekki eingöngu eins og ráðherrann tók undir líka, heldur á menntapólitískum forsendum. Ég vildi sérstaklega hnykkja á þessu.