133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

sameining Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands.

431. mál
[14:39]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit ekki af hverju ríkisstjórnin er stöðugt í þeirri umræðu að tuða á einhverri meðalmennsku. Ekki hef ég notað það orð um frammistöðu ríkisstjórnarinnar eða hæstv. ráðherra um þetta. Ég mundi kannski orða það þannig að það bæri vott um svolítinn skort á metnaði fyrir hönd ráðuneytisins og háskólans, sér í lagi þegar horft er til þess að ef líta ber á þetta sem einhvers konar afmælisgjöf í tilefni af 100 ára afmæli háskólans, þá er það allt of lítið. Ég get upplýst hæstv. forseta um að næsta ríkisstjórn — ef Samfylkingin mun hafa þar einhver áhrif — mun standa miklu betur að því en hér er lofað.

Það skiptir ekki máli. Ásetningurinn var góður þó að ég sé ósammála því sem ráðherrann segir að það hafi verið einhver sérstakur rausnarskapur að láta 300 milljónir á þessu ári, vegna þess að ég hef miklu meiri metnað en svo fyrir hönd Háskóla Íslands. Ég trúi ráðherranum líka fyrir því að ég hef á síðustu árum — stundum í andstöðu við mína eigin flokksmenn — stutt mjög innan vébanda flokks míns uppbyggingu hinna nýju háskóla og hef varið það mikla fjármagn sem þangað hefur runnið. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að núna sé kominn tími á það að standa dyggilega við bakið á Háskóla Íslands, mun dyggilegar en ríkisstjórnin hefur gert. Ég tel að ef verða á af þessum samruna háskólanna tveggja eigi sérstaklega að verja fjárveitingum til þess að efla og styrkja kennaramenntun í landinu.

Forusta Kennaraháskóla Íslands er sniðug. Hún ætlar sér auðsjáanlega í framhaldi af þessu að lengja kennaranámið og nota þetta sem fjaðurmagnað stökkbretti til að kasta sér yfir það. Gott og vel, ég óska henni gæfu og gengis í þeim leiðangri. En ég tel að það hafi þá komið út úr þessari umfjöllun að dregið var út úr ráðherranum að loksins — hún nefndi það aldrei í fyrstu ræðu sinni — á að lengja kennaranámið upp í fimm ár. Það er þó alla vega afrakstur þeirrar (Forseti hringir.) löngu umræðu í dag við hæstv. ráðherra að hún er búin að lýsa því yfir. Það gerði (Forseti hringir.) hún ekki í framsöguræðu sinni.