133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

sameining Kennaraháskóla Íslands og Háskóla Íslands.

431. mál
[14:44]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil biðja hæstv. menntamálaráðherra afsökunar á því að ég skuli ekki hafa lesið allar ræður hennar. Ég verð þá að segja á móti að mér finnst það fjandi hart að hæstv. ráðherra hefur greinilega ekki hlustað á allar mínar ræður.

Ég hef úr þessum stóli lýst því alveg skýrt yfir að ég tel að samkeppni á millum háskóla sé af hinu góða. Þess vegna brá mér pínulítið hérna fyrr í dag þegar hæstv. ráðherra fór að daðra við eitthvað, að vísu ósagt en lá í orðum hennar, þegar hún talaði um samstarf Háskóla Íslands og Háskóla Reykjavíkur, eins og hún væri að stefna að því að það væri a.m.k. æskilegt að hennar viti að þar yrði um einhvers konar sameiningu að ræða. Ég tel að það sé algjörlega út í hött ef það vakir fyrir ráðherranum.

Nei, frú forseti, ég er þeirrar skoðunar að undirstaðan til langs tíma að því er varðar það samkeppnisforskot sem við Íslendingar þurfum á að halda í efnahags-, atvinnu- og menntamálum hvíli að verulegu leyti á því að gerð verði ákveðin uppstokkun og ég get jafnvel leyft mér að kalla það byltingu á sviði kennaramenntunar. Ég hef sagt það alveg skýrt, við höfum fordæmi fyrir okkur sem er grann- og frændþjóðin Finnar. Við eigum að stefna að því að lengja kennaranámið og heppilegasti punkturinn til þess að gera það er ef menn ráðast í að sameina þessa tvo skóla vegna þess að þá er hægt að gera það með sem minnstum tilkostnaði og með sem mestum fjölbreytileika. Þess vegna átti hæstv. ráðherra að lýsa því yfir í tilefni af þessu frumvarpi að hún hygðist gera það.

Hvað gerir hún? Jú, hún stofnar nefndir. Þær eru búnar að vinna. Nefndin sem hæstv. ráðherra vísaði til skilaði í fyrra. Jú, ráðherrann vildi hafa samráð við sveitarfélögin. Hún hefur gert það. En ráðherrann á að taka pólitíska ákvörðun um þetta. Hún á að standa á henni alveg eins og við lýsum því yfir að við ætlum að lengja kennaranám í landinu og hugsanlega gera það á grundvelli frumvarpsins ef það fer hér í gegn, sem ég er þó ekki viss um, og ég lýsi því aftur yfir: Stuðningur minn við það er skilyrtur því að (Forseti hringir.) það liggi alveg ljóst fyrir (Forseti hringir.) að þetta sé partur af því að lengja kennaranámið í landinu.