133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

æskulýðslög.

409. mál
[14:53]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Hér er rætt frumvarp til æskulýðslaga sem á að taka við af þeim lögum sem nú gilda og eru frá 1970. Finnst mörgum tími til kominn að samin séu ný lög um þetta efni.

Ég verð að segja fyrir minn hatt að ég hef ákveðnar efasemdir um lagasetningu af þessu tagi. Ég tel eðlilegt að hafa lög um æskulýðsstarf á vegum ríkis og sveitarfélaga og um rannsóknir á högum og kjörum og hátterni æskulýðs og um styrkveitingar til æskulýðsstarfs en miklu síður lög sem gilda um félagasamtök sem hið opinbera, almannavaldið ræður ekki yfir. En hér er auðvitað farið yfir þessi landamæri milli hins opinbera og félagasamtakanna.

Það vill svo til að ég á mér skoðanabræður og -systur í þessu efni. Því þegar þetta frumvarp kom fram í fyrra voru send inn álit og umsagnir um það. Þar á meðal var ein þar sem eftirfarandi er lýst yfir, með leyfi forseta:

„… lög um æskulýðsstarf frjálsra félagasamtaka eiga engan veginn rétt sér. Frjáls félagasamtök starfa eftir sínum eigin markmiðum og skipulagi eins og 1. mgr. 74. gr. stjórnskipunarlaga, nr. 33/1944, kveður á um. 74. gr. stjórnskipunarlaga gerir einmitt ráð fyrir því að löglegur félagsskapur manna skuli starfa án íhlutunar löggjafans. Með löglegum félagsskap er átt við að félögin starfi í löglegum tilgangi en ekki að löggjafanum sé frjálst að kveða nánar á um starfsemi þeirra. Grípi löggjafinn fram fyrir hendurnar á frjálsum félagasamtökum er um að ræða ólögmæta skerðingu á félagafrelsi sem brýtur í bága við stjórnarskrána nema skerðingin sé vegna brýnna almannahagsmuna. Tekið skal fram að löggjafanum er að sjálfsögðu heimilt að setja lög sem kveða almennt á um innan hvaða ramma félög geta starfað en löggjafinn getur ekki hlutast til um markmið og skipulag einstakra félaga.“

Hér lýkur tilvitnuninni en síðar í erindi sínu segir umsagnaraðilinn að í þessum lögum sé gert ráð fyrir að þau gildi um starfsemi félaga og félagasamtaka til að sinna æskulýðsmálum á frjálsum áhugamannagrundvelli og það sé líka gert ráð fyrir því, með leyfi forseta: „að slík félög vinni að ákveðnum málum m.a. í samvinnu við ráðherra menntamála.“ Umsagnaraðilinn telur að frjáls félagasamtök eigi að vera óháð ríkisvaldinu og vinna að sínum málum án afskipta þess. Það sé ekki hlutverk stjórnvalda að leitast eftir lögbundnu samstarfi við frjáls félagasamtök.

Ég get að mörgu leyti tekið undir þetta þótt ég sé ósammála mörgu öðru í þessari ákveðnu umsögn sem kemur frá — og nú eiga menn að geta, eins og gert er í Fréttablaðinu nú orðið, flett upp á annarri síðu til að vita hver hafi sagt ákveðna hluti — en þetta sagði Samband ungra sjálfstæðismanna í fyrra um þetta frumvarp.

Ég held að önnur rök hnígi þó til þess, og viðurkenni það, að lög af þessu tagi séu sett og fari þar með yfir landamærin milli hins opinbera og félagasamtakanna, en þau rök sem Samband ungra sjálfstæðismanna setur hér fram, og ég get um margt gert að mínum, leiða til þess að það verður að fara ákaflega varlega með slíka lagasetningu.

Það vekur athygli mína að það er aðeins ein breyting gerð núna á frumvarpinu frá í fyrra þegar það fékk töluverða umfjöllun í menntamálanefnd en um það varð hins vegar tiltölulega óöguð umræða í upphafi og málið komst aldrei út úr nefndinni.

Eins og Samband ungra sjálfstæðismanna vekur athygli á og mælir gegn þá eru aldursmörk í frumvarpinu, að það gildi um starf barna og ungmenna á aldrinum 6 til 25 ára. Ég verð að segja að miðað við eðli máls þá eru rök til þess að setja lög um starf sem er ætlað börnum, þ.e. til 18 ára aldurs. En mér þykir hæpið að setja lög um starfsemi félagasamtaka sem ná til fólks sem er eldra en 18 ára því þar höfum við sett markið. 18 ára er fólk orðið fullorðið að öllum lögum nema lögum um áfengiskaup sem miðast við 20 ár og síðan eru enn ein aldursmörk, það má ekki bjóða sig fram til forseta fyrr en maður er 35 ára. Kannski ætti einmitt að framlengja þetta þangað, 6 til 35 ára, þar eru þó a.m.k. einhver skil í lögum en ekki við 25 ára aldurinn því hvergi nema í þessum lögum er miðað við þann aldur.

Ég er hissa á því að það skuli bara vera ein breyting vegna þess að í starfi okkar í menntamálanefnd í fyrra komu fram fjölmargar athugasemdir. Það komu fram athugasemdir við Æskulýðsráðið, við þessa breytingu á hlutverki þess. Nú á það að verða bara ráðgefandi. Við þurfum auðvitað að fara betur yfir hvað Æskulýðsráð á að gera.

Það er stundum kallaður ferðaklúbbur forustumanna. Ferðaklúbbur fólks sem hefur verið nánast valið til þess að fara í þetta. Ég er ekki að gera lítið úr Æskulýðsráðinu en þetta er bara svona. Og nú á að gera það bara ráðgefandi og að einhverju leyti stefnumótandi. Það mótar auðvitað enga stefnu en það leggur þó fram álit sitt á hinu og þessu sem er að gerast og á stefnumótun sem aðrir sjá um.

Það hefur að vísu verið stækkað úr þeim fimm sem þar sitja í níu. Ég held að ef þetta á að verða raunverulegur vettvangur fyrir æskulýð og fólk í æskulýðsstarfi, þá sé eðlilegt að stækka það enn þá meira þannig að þarna sé svolítill vettvangur, þarna geti tekist nokkur umræða og menn geti, bæði ungir menn og fullorðið fólk yfir 18, 25 eða 35 ára sem tekur þátt í æskulýðsstarfi, öðlast þarna nokkra reynslu og haft áhrif. En hér er því í engu breytt.

Það voru líka gerðar athugasemdir við æskulýðssjóðinn sem nú á að lögfesta í frumvarpinu en hefur starfað án lagagrunns í nokkur ár. En það er Æskulýðsráð og ráðherra sem fara saman með þann sjóð. Það verður að segjast eins og er að grundvöllur úthlutana úr honum er óljós. Þegar litið er yfir lista yfir fjárþega sjóðsins þá virðast ýmis verkefni og ýmsar stofnanir og samtök vera nánast eins og með áskrift að úthlutunum þarna. Ég tel að það þurfi að fara verulega yfir þessar úthlutanir og skapa þeim skýran ramma þar sem faglegar forsendur eru ráðandi.

Það voru líka gerðar talsverðar athugasemdir, vil ég segja, um æskulýðsrannsóknirnar. Það er ekki gert ráð fyrir að fræðimenn eða samtök fræðimanna taki þátt í ráðgjafarnefndinni sem á að fjalla um þær. Það er engin fagleg ráðgjöf sem þar er veitt þó að ráðgjafarnefnd eigi að heita. En hér er auðvitað afar mikilvægt atriði á ferð, æskulýðsrannsóknirnar, sem sífellt aukast að mikilvægi, menn mega ekki festast í einhverju fari við fjárveitingar til þeirra.

Ég verð að segja að þótt það sé gott að verja sérstöku fé til slíkra rannsókna þá er skipulag rannsóknanna þvert á þá hugsun sem nú tíðkast, að annaðhvort fari rannsóknin fram á stofnunum eða miðstöðvum sem lúti þá aga akademískra reglna eða þá að úthlutað sé til rannsókna úr samkeppnissjóðum eftir vandlega yfirferð þar sem mat á verkefnum og mat á árangri þeirra byggjast á skoðunum og áliti jafningjans, svokölluðu jafningjamati. Þannig að þetta stendur nokkuð skakkt í liðnum.

Það er full ástæða til þess að athuga hvernig málum er háttað að þessu leyti sem ég hef nefnt í grannlöndunum, en um það er ekkert í athugasemdum við frumvarpið og ekki lýst á neinn hátt þeim fyrirmyndum sem kynni að vera hægt að fara eftir við endurnýjun laganna þótt 37 ár séu nú liðin frá því síðustu lög voru sett. Um þetta þarf að búa allt saman betur og fara vel í gegnum þetta í nefndinni.

Það sem mestan tíma tók í fyrra var raunverulega 10. gr., Starfsskilyrði í æskulýðsstarfi. Í nefndinni var einkum fjallað um bann við því að ráða starfsmenn sem hafa brotið af sér með einhverjum hætti.

Áður en ég hef þessa umfjöllun vil ég segja að það er ekki almennt æskilegt að afbrotamenn starfi mikið að æskulýðsmálum. Ég held að allir geti verið sammála um að almennt er ekki æskilegt að afbrotamenn komi mjög við sögu æskulýðsmála, starfs með börnum og ungmennum.

Það er rétt sem getið er í athugasemdum að ákvæði um kynferðisafbrotamenn eru í frumvarpinu í beinu framhaldi af ákvæðinu í 36. gr. barnaverndarlaga og úr því menn settu þetta ákvæði í barnaverndarlögin þá má telja eðlilegt að hafa það hér líka og jafnvel í fleiri lögum, svo sem um íþróttastarf og annað.

Það er hins vegar athyglisvert að hér er ekki látið sitja við það sem er í barnaverndarlögum þar sem ákvæðið miðast mjög skýrt við afbrot gegn börnum undir 18 ára heldur er allur 22. kafli hegningarlaga tekinn með. Það eru sem sé allir þeir sem hafa brotið af sér með einhverjum hætti samkvæmt 22. kaflanum bannaðir hér, alltaf og ævinlega. Þetta er ævilangt bann, ævilöng útlegð frá því að koma nálægt æskulýðsstarfi, ekki bara sem launaðir starfsmenn, heldur líka sem sjálfboðaliðar í skipulegu æskulýðsstarfi af hvaða tagi sem er með börnum og ungmennum frá 6 til 25 ára.

Þegar maður verður fyrir því að þurfa að lesa 22. kafla hegningarlaganna þá er það ekki mikil skemmtun. Það er sannarlega ljótur kafli. Öll afbrot í þeim kafla eru vond. En þó eru þau ekki öll jafnalvarleg. Það er svo þegar menn fara í hegningarlögin og þurfa að vega þar saman ákvæði að þá er manni skylt að líta á það hversu alvarleg brotin eru þó að öll séu þau vond.

Í barnaverndarlögum var þetta ákvæði fyrst og fremst sett, segir þar í athugasemdum sem reyndar eru teknar upp að einhverju leyti í athugasemdum um æskulýðslagafrumvarpið, vegna þeirrar áráttu sem menn vita að kynferðisafbrotamenn gegn börnum hafa, að leita í sama farið. Það er erfitt að lækna þessa menn eða koma þeim frá því að hneigjast til sömu afbrota. Þess vegna töldu menn rétt á þeim tíma að setja upp þessi skýru skil, þennan múr, gegn því að kynferðisafbrotamenn kæmu nálægt barnastarfi af nokkru tagi.

Þetta er ekki umdeilt og ekki heldur í þessum lögum. Hins vegar þykir mér a.m.k. rétt að íhuga hvort ástæða er til þess að dæma alla jafnhart sem hafa brotið af sér samkvæmt 22. kafla. Til dæmis er í 22. kafla þessara laga bann við vændi. Þar á meðal eru þeir menn sem hafa lent í þeirri ógæfu að leiðast út í vændi brotlegir samkvæmt þessum lögum. Nú eru að vísu áhöld um það, sumir telja að þessum kafla eigi að breyta.

En það er svo að þeir sem hafa stundað vændi, þeir mundu teljast undir þennan flokk. Konur sem hafa lent í slíkri ógæfu á unga aldri mættu þá heldur ekki taka þátt í neins konar æskulýðsstarfi. Þær mættu hins vegar taka þátt í barnastarfi. Samkvæmt barnaverndarlögum mættu þær gera það en ekki taka þátt í æskulýðsstarfi. Þær mættu starfa beinlínis að málefnum barna en mættu ekki vera matráðskonur í Vatnaskógi eða neins staðar þar á ferli þar sem æskulýðsstarf tekur til fólks undir 18 ára aldri.

Rökstuðningurinn í athugasemdunum fyrir því að þetta sé öðruvísi en í barnaverndarlögunum er sá að lögin taki líka til starfs með fólki frá 18 til 25 ára. Þá er maður eiginlega kominn í hring, að teygja þetta upp í 25 ár er væntanlega gert vegna þess að erfitt sé að skilgreina æskulýðsstarf sérstaklega miðað við 18 ára aldurinn. Þessi rök verða ákaflega sérkennileg í því ljósi.

Ég held að við eigum að íhuga það hvað hér er að gerast. Við megum ekki algerlega afdráttarlaust útiloka brotamenn frá þátttöku í samfélaginu. Það ætti hæstv. menntamálaráðherra reyndar að þekkja og sumir hér í salnum líka, vegna þess að nú um stundir er það svo að brotamenn sem hafa tekið út refsingu sína, ég man nú ekki hvort það eru fimm ár síðan, eru velkomnir á framboðslista í landinu og væntanlega komast sumir í hóp alþingismanna sem fara með fjárveitingavald, jafnvel þótt þeir hafi brotið af sér einmitt fyrir meðferð almannafjármuna. Ég er ekki að segja þetta tilteknum einstaklingum til lasts, en ég er að vekja athygli á því að það verður að vera ákveðin samkvæmni í þessum efnum.

Þrátt fyrir allt og með þeim galla sem ég nefndi, eru þessi ákvæði eðlilegt framhald af barnaverndarlögunum. Ákvæðið um brot á fíkniefnalögunum er hins vegar einkennilegra. Því hefur að vísu verið breytt frá í fyrra og er þó skárra núna en þá var vegna þess að nú eru það aðeins fimm ár eftir brotið sem eru tiltekin.

Ég vil segja aftur að það er ekki æskilegt að afbrotamenn séu í æskulýðsstarfi þótt hér standi að vísu svo á að sumir þessara afbrotamanna geti verið gagnlegir fyrir æskulýðsstarf eins og menn hafa nefnt, menn sem hafa slíka reynslu og hafa snúið af þeim vegi, geta sagt frá því og vitnað um það á sannfærandi hátt.

Rök nefndarinnar sem samdi frumvarpið og síðan frumvarpsflytjandans fyrir því að taka svona á þessu er það að nefndin hafi upplýsingar um að ungt fólk sé markhópur fíkniefnasala sem ég efa í sjálfu sér ekki vegna þess að fíkniefnaneysla er því miður mest hjá ungu fólki, þ.e. neysla annarra fíkniefna en áfengis sem hér er verið að ræða um.

Síðan hefur nefndin komist að því með einhverjum hætti að fíkniefnasalar sæki í störf hjá æskulýðssamtökum. Við könnuðum þetta nokkuð í fyrra í menntamálanefnd og það reyndist nú ekki vera sjáanlegur fótur fyrir þessu haldi nefndarinnar. Engin dæmi voru uppi um slíkt og þeir menn sem menntamálanefnd ræddi við könnuðust ekkert við það og var nú töluverður listi af fólki og sumir hlógu. Þeir sem þekktu best til slíkra mála, til þessarar veraldar hlógu nú að því að fíkniefnasalar sæktu í störf hjá KFUM og KFUK eða hjá skátunum og ungmennafélögum stjórnmálaflokkanna o.s.frv.

Það er sérkennilegt að þetta ákvæði um fíkniefnin og reyndar 22. kaflann líka, gildi bæði um starfsmenn og sjálfboðaliða. Það setur ansi mikla ábyrgð á þá sem með þau mál eiga að fara að þurfa að kanna það líka hjá sjálfboðaliðum áður en þeir hefja störf hvort þeir hafa brotið af sér.

Mín skoðun í stuttu máli er sú, að það er sjálfsagt að viðhafa varúð við ráðningar á þessu sérstaka sviði og ef til vill rétt að brýna slíka varúð fyrir mönnum í æskulýðslögum en þar á við að sitja nema í hinu sérstaka tilviki um kynferðisafbrotamenn sem eru sekir um afbrot gegn börnum.

Af hverju eiga afbrotamenn á fíknisviði að fá að vinna með börnum og unglingum, mætti spyrja á móti? Svarið hef ég tekið fram áður, almennt eiga þeir ekki að gera það nema um sérstakar aðstæður sé að ræða sem vegi þá upp á móti þeim galla umsækjandans í þessu tilviki eða sjálfboðaliðans, að hann hafi að baki afbrot af þessu tagi.

En ég get spurt þá áfram: Af hverju eiga morðingjar og ræningjar að vinna með börnum og unglingum? Af hverju eiga fjárglæframenn að vinna með börnum og unglingum? Af hverju á fólk sem hefur á bak við sig sögu um heimilisofbeldi að vinna með börnum og unglingum? Af hverju eiga drykkjumenn að vinna með börnum og unglingum? Hvers konar siðgæði lýsir það að eitt vímuefni er talið vera í lagi meðan þess er ekki beinlínis neytt í æskulýðsstarfinu sjálfu en ekki annað? Erum við virkilega að hugsa um velferð barna og unglinga í þessu eða erum við kannski að firra okkur ábyrgð á ákaflega yfirborðskenndan hátt?

Því dæmin um morðingja, ræningja, menn sem eru sekir um heimilisofbeldi, fjárglæframenn og drykkjumenn eru alveg rétt, því fólki er engan veginn bannað að taka þátt í æskulýðsstarfi.

Forseti. Tíma mínum er lokið. Ég hef reyndar meira að segja um þetta. En það eru margir á mælendaskrá og þess vegna er kannski ágætt að ég bíði með síðasta hlutann af ræðu minni þangað til á eftir.