133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

æskulýðslög.

409. mál
[15:32]
Hlusta

Ásta Möller (S) (andsvar):

Ég held að það sé varla þörf á að svara þessari spurningu, hún er svo algerlega út hött. Ég held að það sé alveg ljóst að í þessu frumvarpi eru sérstaklega tekin fram kynferðisbrot. Mér heyrist á málflutningi hv. þingmanns að við séum algerlega sammála í þeim efnum, við erum líka sammála varðandi ávana- og fíkniefni. Þetta eru þeir aðilar sem mest hætta er á að hafi áhrif á börnin til hins verra og brjóti gegn börnum.

Ég held að það sé alveg ljóst að með ákvæðinu varðandi sakaskrána, hvort heldur það var hv. þingnefnd eða menntamálaráðuneytið sem bættu því inn í frumvarpið, hafi forstöðumenn slíkrar starfsemi í höndunum ákveðið tæki til að ganga úr skugga um hvort viðkomandi hafi brotið af sér með öðrum hætti og þá sé möguleiki á því að meta það.

Ég tel að það þyrftu að vera býsna sterk rök fyrir því að maður sem brotið hefur af sér viljandi, tekið líf annarrar manneskju eða verið kunnur að því að hafa stundað innbrot sé einstaklingur sem æskilegt væri að hafa í starfi með börnum og ungmennum.