133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

æskulýðslög.

409. mál
[16:03]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það verður fróðlegt að heyra það þá í menntamálanefnd núna vegna þess að við umfjöllun okkar í fyrra kom ekki fram eitt einasta slíkt dæmi. Ég þekki ekki það. Ég hef að vísu lesið þennan tölvupóst vegna þess að hann var birtur á heimasíðu hv. þm. Ástu Möller. Önnur dæmi komu ekki fram, og eins og ég segi, þá brostu sumir að þessu haldi manna að fíkniefnasalar, „pusherar“ og dópdílarar eins og þeir eru nú nefndir sæki sérstaklega í störf hjá skátunum og íþróttasamtökunum. Það þykir heldur ólíklegt.

Ég er sammála hv. þm. Ástu Möller, menntamálaráðherra og, held ég, öllum þingheimi um að afbrotamenn eru ekki æskilegir til þess að starfa að æskulýðsmálum eða barnaverndarmálum yfir höfuð. Hins vegar er hvert tilvik sérstakt. Hver sakamaður hefur sína sérstöðu og mér þykir ekki hægt, með þessari einu undantekningu sem ég hef nefnt hér nokkrum sinnum, sem miðast við barnaverndarlögin að útiloka þá fyrir fram og um aldur og ævi, að sumu leyti, frá þessu.

Vel má vera að Ásta Möller hyggi á breytingar á XXII. kafla hegningarlaga, einhverjar breytingar á honum. En það ósköp einfaldlega stendur í 1. mgr. 206. gr. að hver sem stundi vændi sér til framfærslu skuli sæta fangelsi allt að tveimur árum.

Nú er ég ekki að mæla með því að menn stundi vændi hér sér til framfærslu. En ég er að segja að sú sök og kannski einhverjar fleiri sem hér eru í þessum ljóta kafla kunni að vera þannig að í einstökum tilvikum sé óhætt og jafnvel æskilegt að viðkomandi einstaklingur starfi eða sé sjálfboðaliði í æskulýðsstarfi. Ég treysti mér ekki til að útiloka það um aldur og ævi. Það sama segi ég um þetta bann við fíkni- og ávanaefnum meðan ekki er önnur upptalning á afbrotum sem koma í veg fyrir að (Forseti hringir.) menn starfi að þessum málum.