133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

æskulýðslög.

409. mál
[16:07]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég endurtek: Alþingismönnum og Alþingi Íslendinga er skylt að gæta meðalhófs. Okkur er líka skylt að ræða þannig um viðkvæm mál eins og þetta að ekki sé búið til tilfinningaumrót og með einhverjum hætti af þeim völdum eða í þess skjóli settar reglur sem ganga út yfir meðalhófið, settar reglur sem ekki mæta öðrum almennum sjónarmiðum sem gilda um mannréttindi og lagasetningu. Það er þannig.

Ágætt dæmi um slíka reglu er reyndar nefnt í athugasemdum við 36. gr. frumvarpsins sem síðar varð að núverandi barnaverndarlögum. Mig minnir að það heiti Megan-lögin í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Á grunni þeirra hafa verið settar slíkar reglur um kynferðisafbrotamenn af öllu tagi að Evrópumönnum blöskrar og má minna á að nú er að koma heim drengur, vil ég nú segja, sem gerðist með einhverjum hætti brotlegur, en ekki þeim að hann hafi verðskuldað þá refsingu sem hann fékk og hefur nú kannski farið langt með að eyðileggja hans líf.

Ég vænti þess að Ásta Möller sé mér sammála um þetta. Ég vænti þess að hv. þm. Ásta Möller sé mér sammála um að við eigum að gæta meðalhófs. Við eigum vissulega að hefja yfir allan þann vafa sem hægt er að börn séu sett í umsjá hættulegra manna. En við eigum líka að muna eftir því að mannslíf er mannslíf, hv. þm. Ásta Möller.