133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

námsgögn.

511. mál
[16:31]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil víkja að þeim tveimur atriðum sem mér fannst helst beinast að mér. Annars vegar varðandi námsgögnin. Hv. þingmaður talaði um Landsvirkjun. Það skiptir mig ekki máli hvort það er Landsvirkjun, Landvernd eða einhverjir aðrir. Ég treysti skólunum, kennurunum og skólastjórunum til þess að meta hvaða námsgögn þeir vilja nota í sínum skóla. Við erum í raun að undirstrika það líka með frumvarpinu að við treystum kennurunum til þess að velja námsefnið.

Það er alveg rétt að aðferðafræðin er sú að við erum að auka fjármagn til námsgagnagerðar um 100 millj. Ég ákvað að beina ekki þeim fjármunum til Námsgagnastofnunar sem vel að merkja hefur staðið sig vel í sínu hlutverki. Ég ákvað að beina þeim í sjóð sem þeir aðilar sem ég hef þegar nefnt eru í stjórn sjóðsins, Kennarasambandið og sveitarfélögin. Að beina þeim í sjóð sem hefur það hlutverk einfaldlega, það er mjög einfalt hlutverk sem sá sjóður hefur, að deila fjármagninu jafnt til skólanna per haus. Ef við gefum okkur að sjóðurinn veiti 1.000 kr. per haus þá eru það 100 þús. kr. á 100 manna skóla. Þá hefur sá skóli það fjármagn til þess að kaupa námsgögn. Forráðamenn skólans geta ákveðið að kaupa námsgögnin frá Námsgagnastofnun eða frá öðrum bókaútgefendum eða námsgagnaframleiðendum.

Við verðum líka að hafa í huga söguna í þessu sambandi. Fjölmargar nefndir hafa fengið það hlutverk að endurskoða hlutverk námsgagnagerðar Námsgagnastofnunar hér á landi. Í þessari nefnd sátu m.a. fulltrúar frá Kennarasambandi Íslands, frá skólastjórnum og sveitarfélögum og þetta er sameiginlegt álit nefndar sem skilar í fyrsta skipti. Ég tel þetta mjög farsælt skref til þess að auka fjölbreytni námsbókaútgáfu og hleypa fleirum að námsgagnagerð.