133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

námsgögn.

511. mál
[16:55]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka frekar vinsamlegar móttökur hv. þm. Marðar Árnasonar. Mér finnst hann hafa farið mjög skynsamlega yfir málið og komið með góðar ábendingar sem ég tel vert að menntamálanefnd taki sérstaklega til athugunar.

Þó er eitt sem ég vil útskýra varðandi gæðaeftirlitið. Ég tel mikilvægt að við höldum að sjálfsögðu uppi gæðaeftirliti. En gæðaeftirlitið varðandi námsgögnin er til þess að gera það sem hv. þingmaður sagði svo réttilega, þ.e. að við viljum viðhalda eða setja á laggirnar ákveðinn markaðsbúskap. Skólarnir hafa þá ráðrúm til að ákveða hvert þeir beina sínu fjármagni. En gæðaeftirlitið sem stjórn námsgagnasjóðs á að hafa með höndum er eftir á. Skilyrði sem menn hafa í huga varðandi úthlutunina eru þau í fyrsta lagi að setja ákveðin skilyrði inn í skólann, til dæmis varðandi ívilnun fámennra skóla og síðan hitt að menn séu ekki að setja fjármagnið sem þeir fá til námsgagnakaupa í eitthvað allt annað, kaupa sjónvörp, menn hafa verið að tala um skjávarpa eða eitt og annað, heldur að menn noti fjármagnið sem þeir fá frá námsgagnasjóði til kaupa á námsgögnum. Síðan er gæðaeftirlit eftir á. Það er hugsunin með þessu að skólarnir fái valfrelsi, fá svigrúmið og fái matið á því hvert menn vilja beina þessum fjármunum sem þeir fá úthlutað frá námsgagnasjóði. Við erum að segja að við treystum skólunum til þess að ákveða hvaða námsgögn þeir kaupa og við vonumst til þess að þá verði til ákveðinn markaðsbúskapur með námsgögn sem muni fela í sér enn meiri gæði til lengri tíma litið í námsgögnum.