133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

heildarstefnumótun í málefnum útlendinga og innflytjenda.

48. mál
[17:06]
Hlusta

Flm. (Guðrún Ögmundsdóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um heildarstefnumótun í málefnum útlendinga og innflytjenda. Flutningsmenn ásamt mér er allur þingflokkur Samfylkingarinnar.

Tillagan er svohljóðandi:

Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa heildstæða opinbera stefnu í málefnum útlendinga og innflytjenda.

Markmið stefnunnar skal vera að samræma og tryggja réttindi útlendinga og innflytjenda sem hingað koma vegna atvinnu, fjölskyldusameiningar eða sem flóttafólk.

Stefnumótunin skal unnin af sérstakri nefnd með aðild forsætisráðuneytis, dómsmálaráðuneytis, menntamálaráðuneytis og félagsmálaráðuneytis. Jafnframt eigi sæti í nefndinni fulltrúar sveitarfélaga, Rauða kross Íslands og Alþjóðahúss.

Umboð nefndarinnar verði með þeim hætti að hún geti skipað vinnuhópa um einstaka málaflokka sem komi til nánari skoðunar hjá nefndinni.

Á grundvelli slíkrar stefnumótunar verði ráðist í lagabreytingar sem nauðsynlegar þykja til að tryggja réttindi útlendinga og innflytjenda sem best, og gera málaflokkinn samhæfðari, gegnsærri og skilvirkari.

Nefndin ljúki störfum haustið 2007.

Virðulegur forseti. Ég ætla aðeins að fara yfir greinargerðina sem fylgir þingsályktunartillögunni. Margir hafa í fyrstu velt því fyrir sér af hverju ég sé með sérstaka nefnd í þessu máli en ekki að innflytjendaráð komi að málinu og skýringin á því er afar einföld. Innflytjendaráð er ekki með stoð í lögum og meðan svo er er ekki hægt að fela því slík viðamikil verkefni. Eitt af brýnustu verkefnum sem ég nefni í greinargerðinni mun því vera að gefa innflytjendaráðinu lagastoð.

Það er afar mikilvægt að það sé mótuð sé skýr og heildstæð stefna í málefnum sem snúa að útlendingum og innflytjendum. Umræðan um þessi mál á eftir að aukast verulega í takt við þá fjölgun sem hefur orðið hérna og opnun Evrópu, samfara aukinni þörf fyrir vinnuafl. Þá má ætla að í kjölfarið muni kannski enn fleiri en nú kjósa að setjast hér alfarið að og aðlagast samfélaginu. Við erum að ræða um verulega stóran hóp og þar ber auðvitað hæst að höfuðborgarsvæðið er fjölmennast og auðvitað Norðausturkjördæmi með Kárahnjúkavirkjun þar í broddi fylkingar en sennilega er stærsti hópurinn á suðvesturhorninu.

Varðandi verkefni nefndarinnar þá er samþætting lykilhugtak og sú hugmyndafræði sem byggt er á og það ber að hafa í huga þegar heildarstefna af þessu tagi er annars vegar. Slík hugmyndafræði er líka nýtt t.d. í málefnum fatlaðra, málefnum kvenna og ýmsum öðrum málaflokkum og þess vegna er þetta það tæki sem er brýnt að nota. Samþættingin tekur t.d. til þess að allir minnihlutahópar mætist og blandist samfélögum á þann hátt að þeir haldi að hluta sinni eigin menningu og sérkennum sínum ásamt því að aðlagast íslensku þjóðfélagi og tileinka sér t.d. tungumálið, en jafnframt fái þeir auðvitað aðgang að allri þjónustu fyrir fjölskyldur sínar, svo sem í leikskóla og skóla og aðgang að íslenskum vinnumarkaði. Samþætting þarf einnig að taka til þátta eins og vinnustaða, búsetu, náms, skólagöngu og stuðnings.

Við þurfum ekki annað en að líta t.d. til Vesturheims þangað sem Íslendingar flykktust áður fyrr. Þeir héldu öllum sínum sérkennum, voru í sínum hópum en aðlöguðust samt sem áður vel samfélaginu og urðu þar mætir borgarar og miklir frammámenn.

Ég byrja á því í greinargerðinni að ræða um þau lög og reglugerðir sem þarf að breyta eða fara yfir. Þetta segir okkur það að með slíkri nefnd þarf kannski að skipa marga vinnuhópa sem hafa ákveðin verkefni og það er vegna þess að þetta er líka ákveðinn frumskógur. Við þurfum alltaf að hafa það að markmiði að lögin verði gegnsæ og að þau séu heildstæð hvort sem um er að ræða atvinnurétt, þjónustu eða búsetu, þannig að allt sé heildstætt.

Ég nefni nokkur lög sem hafa valdið óróa sem er mikilvægt að skoða en númer eitt er að innflytjendaráð fái stoð í lögum. Það væri mjög gagnlegt, eins og t.d. í þessu máli sem nú mun fara til félagsmálanefndar en félagsmálanefnd hefur þegar rætt um stefnu ríkisstjórnarinnar um aðlögun innflytjenda, og hún gæti þá komið með tillögu um lagabreytingu um að innflytjendaráð fengi lagastoð. Það væri ekkert óeðlilegt að félagsmálanefndin mundi þá koma fram með slíka tillögu beint, því það er mjög brýnt að svo verði svo að þangað sé hægt að senda verkefni og skipa undirhópa og vinnuhópa með öðru fagfólki sem fara yfir einstaka mál. Slíkt er auðvitað á öllum Norðurlöndunum og ég vil benda á t.d. etnískt ráð í Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi og Noregi. Þetta eru í rauninni þau tæki sem eru afar nauðsynleg fyrir stjórnvöld. Þetta er líka það tæki sem vinnur með aðilum vinnumarkaðarins, með pólitískum flokkum, með sveitarfélögum, með öllum aðilum sem þar koma að.

Það er líka mjög mikilvægt að við förum núna heildstætt yfir þau útlendingalög sem eru í gildi, atvinnuréttinn og annað, og þar eru nokkur atriði sem hafa valdið miklu umróti og umræðum meðal útlendinga og eins meðal Íslendinga. Þar má t.d. nefna íslenskukennsluna, á að hafa hana þannig að hún sé algjörlega lögbundin og hvernig, ef svo er? Það verður þá náttúrlega að vera alfarið á kostnað og ábyrgð ríkisins þó svo að aðrir geti sinnt þeirri þjónustu. Eða á það að vera valkvætt, því það mun auðvitað alltaf vera undanþága í öllu slíku? Þá má t.d. nefna fólk af öðrum málasvæðum, fólk sem notar myndir í máli sínu en ekki bókstafi, fólk sem er með annað bókstafakerfi, það er gamalt fólk, það er ólæst fólk, við skulum ekki gleyma því að það getur verið stór hópur sem hér leynist án þess að nokkur aðgerðaráætlun hafi endilega verið kynnt í því. Það geta verið fatlaðir einstaklingar o.s.frv. og því er afar brýnt að skoða allan þennan hóp.

Ég hef líka rætt um að íslenskukennsla verði að vera ókeypis því að þarna verðum við að leggja inn ákveðna fjármuni því að þetta eru fjármunir sem byggja á til framtíðar. Norðurlöndin hafa verið mjög dugleg við að gera slíkt, sérstaklega kannski Norðmenn og öll slík námskeið í tungumáli eru ókeypis þar.

Það hefur verið mikið rætt um svokallaða tuttugu og fjögurra ára reglu. Hún var á sínum tíma sett inn í útlendingalögin til þess að hafa vernd gegn mansali. Þetta er mjög tálmandi ákvæði og stangast á við íslenska löggjöf um hjúskap og það er mjög mikilvægt að við séum ekki með mismunandi löggjöf fyrir útlendinga og Íslendinga, þannig að þetta er eitt af því sem þarf að skoða. Danir eru þeir einu sem eru með hliðstætt í sinni löggjöf, og ég veit að það mál er fyrir mannréttindadómstólum.

Eins um ákvæði um dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar, það ákvæði lýtur í rauninni kannski fyrst og fremst að sýnilegum útlendingum en ekki útlendingum frá Evrópu. Þar með erum við farin að mismuna og jafnvel farin að mismuna eftir litarhætti, sem stangast á við stjórnarskrá. Það er því að mjög mörgu að hyggja.

Eins og ég nefni í greinargerðinni er mikilvægt að undirhópar skoði marga þætti, eitt er afar brýnt og ég vil beina því líka til hv. þingmanna sem hér eru og eru í félagsmálanefnd, að jafnvel verði komið með breytingartillögu varðandi túlkaþjónustu þannig að hún sé tryggð í sveitarfélögum og á öllum þeim stöðum sem viðkomandi einstaklingar þurfa á að halda. Þetta þarf að skoða sérstaklega.

Það þarf að skoða lög um almannatryggingar. Í stefnuplaggi ríkisstjórnarinnar um aðlögun innflytjenda er einmitt rætt talsvert um heilbrigðiskerfið og ég vil taka undir það sem þar er. Þarna er fyrst og fremst verið að tala um almannatryggingar vegna þess að það virðist vera að einhverju sé áfátt með það að fólk sem hér er sé almennilega tryggt. Það sér maður talsvert þegar fólk er að sækja um ríkisborgararétt og þarf undanþágu vegna þess að það var ótryggt og þurfti þar af leiðandi að fá félagsþjónustu sveitarfélaga sem það mátti í rauninni ekki hafa sótt í ákveðinn árafjölda til þess að fá ríkisborgararétt.

Menntamálin eru mjög stór málaflokkur sem þarf að skoða varðandi útlendinga og innflytjendur og það er það að íslenskunámið verði aðgengilegt. Við þurfum líka að skoða sérstaklega hvernig er hægt að auðvelda innflytjendum að fá menntun og starfsréttindi viðurkennd hér á landi. Hér er mjög stór hópur af hámenntuðu fólki sem vinnur ófaglærð störf þannig að það væri mjög til bóta ef það yrði skoðað sérstaklega og ég veit að t.d. er mikil þekking á þeim málefnum í Alþjóðahúsi.

Það þarf að auka áherslu í leik- og grunnskólum varðandi kennslu um fordóma og hvernig þeir birtast og hvernig er hægt að koma í veg fyrir þá. Það þarf líka að huga sérstaklega að því hvernig grunn- og framhaldsskólar taka á móti nemendum af erlendum uppruna. Það er vel tekið á móti íslenskum nemendum erlendis og við ættum kannski að skoða hvernig það er til fyrirmyndar og nýta okkur það hér enn frekar. Það þarf líka að tryggja þessum börnum sína eigin móðurmálskennslu eins og er gert við okkar börn erlendis. Fyrir börn sem eru með íslensku sem annað mál þarf sérstaklega að skoða prófin þannig að þau geti tekið próf og að þau séu jafnmetin.

Það eru mjög margir góðir hlutir í gangi eins og alþjóð veit, ekki hvað síst Fjölmenningarsetrið á Vestfjörðum sem hefur verið eitt besta flaggskipið og Vestfirðingar hafa staðið sig hvað allra, allra best í þessum málaflokki enda með áralanga reynslu af viðveru og búsetu útlendinga á því svæði. Ég held að við þurfum að fara til aldamótanna 1900 til þess að skoða slíkar tölur. Sú þekking sem þar er gæti nýst afar vel við byggingu annarra setra, t.d. fyrir austan eða norðan, en í greinargerðinni er nefnt að slíkt sé nauðsynlegt. Í greinargerðinni er ekki tekin afstaða til þess hvort einn staður, t.d. Fjölmenningarsetrið á Vestfjörðum, eigi að vera móður- eða miðstöð alls. Það er eitt af því sem mér finnst að fagfólkið eigi að fara ofan í og skoða allar þær útfærðu hugmyndir sem þar koma fram. Það þarf að útfæra hugmyndir um námskeiðahald og ráðgjöf og fræðslu til stofnana og einstaklinga og atvinnurekenda, verkalýðshreyfinga o.s.frv. Við erum bæði með Alþjóðahús og Fjölmenningarsetrið sem í rauninni eru lykilstofnanir til þess að sækja þekkingu til.

Einnig er rætt um skipun talsmanns. Ég minni á gamalt frumvarp frá mér um slíkt. Ég held að það þurfi að meta kosti þess og galla alveg sérstaklega, það hefur gefist vel sums staðar þar sem það hefur verið reynt. Í eðlilegu framhaldi af þessu þarf líka að skoða hvort það eigi að setja þennan málaflokk allan undir eitt ráðuneyti í stað tveggja eins og nú er, og þá t.d. allan undir félagsmálaráðuneytið þannig að það fái þá svolítið aðra áru en nú er. Jafnframt ætti kannski að huga að því hvort það ætti að vera einhver ein miðlæg þjónustustofnun sem tæki allar umsóknir, sæi um atvinnuleyfin, búsetuleyfin og allar ráðleggingar þegar fólk kemur fyrst til landsins. Ég held að slíkt ætti að skoða.

Síðan er gert ráð fyrir því að skoða þurfi sérstaklega stöðu kvenna og barna. Um þau mál hefur verið mikil umræða, sérstaklega þeirra kvenna sem lenda í skilnuðum og í sifjamálum og t.d. þess vegna er túlkaþjónusta hjá sýslumanni afar, afar brýn og eins og ég nefndi áðan væri æskilegt ef félagsmálanefnd gæti komið með tillögu um túlkaþjónustuna. Það er grundvallaratriði til þess að fólk geti notið réttar síns að fullu ef á þarf að halda en auðvitað hefur verið aukning í skilnuðum hjá þessum hópum eins og öðrum, en þessar konur standa oft mun hallari fæti en íslenskar konur, þannig að það er mjög mikilvægt.

Það þarf að skoða sérstaklega alla stöðu barna og sérstaklega kannski þann hóp sem við erum ekki farin að sjá mikið hér en er talað um í greinargerðinni og það eru forsjárlaus börn sem send eru á milli landa. Það eru sérstakar miðstöðvar, bæði í Noregi og Danmörku, þar sem er fullt hús af börnum sem hafa verið send forsjárlaust á milli landa og búa þar kannski ekki við nægilega góðar aðstæður og við þurfum að hafa borð fyrir báru með því að huga að slíku. Og við þurfum að skoða sérstaklega stöðu ungmenna, t.d. varðandi sjálfstæð búsetuleyfi þegar skóla lýkur þannig að þau geti haldið áfram námi sínu þrátt fyrir að foreldrar séu kannski ekki með slíkt.

Ég lýk nú máli mínu enda tími minn útrunninn, en ég óska þess að málinu verði vísað til hv. félagsmálanefndar og vona að þaðan komi ákveðnar lagabreytingar sem mundu verða þessum málaflokki til góðs.