133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

heildarstefnumótun í málefnum útlendinga og innflytjenda.

48. mál
[17:29]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta þingmál að öðru leyti en því að fagna að það skuli fram komið og lýsa stuðningi mínum við það í almennum atriðum.

Ég vil taka undir það sem fram kom hjá hv. 1. flutningsmanni og hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, en 1. flutningsmaður er hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir, og aðrir þingmenn Samfylkingarinnar koma að málinu. En það er rétt sem þær benda á að þetta málefni á að sjálfsögðu að fá þinglega meðferð og gagnrýni okkar í morgun, hæstv. forseti, um vinnubrögð ríkisstjórnarinnar um stefnumótun um málefni innflytjenda varðar fyrst og fremst þá málsmeðferð.

Í gær var efnt til fundar í félagsmálanefnd Alþingis og okkur kynnt grunnplagg sem unnið hafði verið fyrir hæstv. félagsmálaráðherra og er í sjálfu sér prýðilegt að mínu mati. Þar eru áherslur sem ég get ágætlega fellt mig við, en ég vek þó athygli á að okkur var sagt að málið væri enn í mótun. Það væri ekki trúnaðarmál, var sagt, en það er enn í mótun. Það kemur til með að breytast.

Þess vegna kom það okkur á óvart þegar það var nær samtímis kynnt á fréttamannafundi og ríkisstjórnin tók að baða sig í þeirri vinnu sem unnin hafði verið fyrir hennar hönd. Við höfum lýst yfir stuðningi við þá vinnu en vildum gjarnan koma að henni og teljum að þetta eigi að fá þinglega meðferð. Ég kveð mér fyrst og fremst hljóðs til að leggja áherslu á þetta.

Ég lýsi því einnig yfir að Vinstri hreyfingin – grænt framboð leggur mikið upp úr því að breið samstaða skapist í þjóðfélaginu, utan þings og innan þingsins, um þetta málefni. Það er mjög mikilvægt. Við höfum lagt fram fjölmörg þingmál sem lúta að réttindum innflytjenda. Ég nefni þingmál sem snertir dvalarleyfi, sem snertir réttindi erlendra verkamanna. Þar vísa ég í þingmál sem hv. varaþingmaður, Atli Gíslason, hefur lagt fram og aðrir þingmenn í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði hafa sameinast um. Við höfum einnig á okkar vegum verið með mikla vinnu á þessu sviði, vinnu sem við viljum gjarnan veita inn í sameiginlegan farveg.

Hæstv. forseti. Ég kvaddi mér fyrst og fremst hljóðs til að koma þessum almennu sjónarmiðum á framfæri, lýsa stuðningi við þann tón sem er að finna í þingmálinu, og vekja athygli á þingmáli Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um þetta málefni og hvetja til þess að því verði beint inn í þinglegan farveg.