133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

heildarstefnumótun í málefnum útlendinga og innflytjenda.

48. mál
[17:33]
Hlusta

Flm. (Guðrún Ögmundsdóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka mjög fína umræðu. Kannski hefði hún orðið meiri ef ekki væri kappleikur í handbolta, en góð var hún. Við sjáum það líka á t.d. því plaggi sem hv. félagsmálanefnd var með í umræðunni, þ.e. því plaggi sem innflytjendaráð er búið að vinna fyrir hæstv. félagsmálaráðherra, að ef við værum með það ásamt þessari heildarstefnumótun og öðrum tillögum sem hér eru inni værum við í afar góðum málum. Það verður að segjast alveg eins og er því að það er mjög góð fagvinna í því plaggi sem innflytjendaráð er búið að gera. Í rauninni bætir þetta hvort annað upp en aðgerðaáætlunin væri kannski það sem þyrfti að fara í. Ef við mundum drífa í slíku þyrfti enginn að óttast hér, hvorki fordóma né það að réttur útlendinga væri fyrir borð borinn, heldur væru þau jafnrétthá okkur hinum sem hér búum.