133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

færanleg sjúkrastöð í Palestínu.

7. mál
[17:44]
Hlusta

Flm. (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég flyt ásamt hv. þm. Guðrúnu Ögmundsdóttur, Jóni Bjarnasyni, Magnúsi Þór Hafsteinssyni og Þuríði Backman þingsályktunartillögu um færanlega sjúkrastöð í Palestínu.

Tillögugreinin hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fjármálaráðherra beiti sér fyrir því að fé verði veitt til kaupa og reksturs á færanlegri sjúkrastöð í Palestínu.“

Málið er efnislega samhljóða máli sem lagt var fyrir á 131. og 132. löggjafarþingum en var ekki rætt þá.

Þess má geta að árið 2002 ályktaði Alþingi síðast um deilur Ísraels- og Palestínumanna. Lýst var áhyggjum af því ófriðarástandi sem þá ríkti fyrir botni Miðjarðarhafs og lagði Alþingi m.a. áherslu á virðingu fyrir mannréttindum.

Eins og fram kemur er málið endurflutt. Því miður er ástandið þannig að það er ástæða til að endurflytja málið því að ef eitthvað er hefur ástandið versnað á þessum árum. Það er alveg óumdeilt að heilbrigðisþjónusta flokkast undir mannréttindi, ég hef ekki orðið var við neinar deilur um það. Þá spyr maður: Hvers vegna er verið að tala um „færanlega sjúkrastöð“? Þannig háttar til á þessu svæði að þar eru varðstöðvar vítt og breitt til þess að hamla umferð vegna styrjaldarástands og það hamlar því að almenningur geti sótt heilbrigðisþjónustu á þessum svæðum. Þess vegna hefur verið talið nauðsynlegt að færa hana til fólksins. Þetta er nokkurs konar bráðaaðgerð, neyðaraðgerð til að koma til móts við þá neyð sem þarna ríkir í heilbrigðismálum.

Heilbrigðismál eru undirstöðuþjónusta og þessi tillaga hefur enga skírskotun til stjórnmála eða þeirra miklu og alvarlegu átaka sem þarna eru. Þetta er tillaga um að koma til hjálpar á þessu sviði og ég vil segja um ástandið almennt að okkur ber að styðja hvers konar viðleitni til að koma á sæmilegu ástandi og friði í þessum löndum, á þessu svæði, en þessi tillaga er lítið skref til þess að koma til móts við þá neyð sem þarna er.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri í upphafi. Ég tel að mál sé til komið að tillagan fái þinglega meðferð og ég óska eftir að henni verði vísað til hv. utanríkismálanefndar að lokinni þessari umræðu.