133. löggjafarþing — 61. fundur,  29. jan. 2007.

landsþing Frjálslynda flokksins og stefna í innflytjendamálum.

[15:02]
Hlusta

Guðjón Ólafur Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Um liðna helgi var haldið landsþing Frjálslynda flokksins. Það var einkum tvennt sem vakti þar athygli. Í fyrsta lagi sú algera ringulreið sem ríkti í kringum kosningar á þinginu þar sem menn gátu kosið án þess að skrá sig í flokkinn, þurftu ekki að gera grein fyrir sér eða framvísa skilríkjum, sumir eru sagðir hafa kosið oftar en einu sinni auk þess sem kjörkassar týndust. Í raun og veru var þetta landsþing Frjálslynda flokksins skrumskæling lýðræðisins og Frjálslyndi flokkurinn er ekki búinn að bíta úr nálinni með það eins og fram hefur komið í fjölmiðlum. Það er furðulegt að menn sem ráða ekki betur við stjórn eigin mála skuli láta sér detta í hug að þeim sé treystandi fyrir stjórn landsins. Menn sem ráða ekki við einn kjörkassa ráða örugglega ekki við ríkiskassann.

Til þessa hefur Frjálslyndi flokkurinn talað um tvö mál, annars vegar Framsóknarflokkinn og hins vegar sjávarútvegsmál. Nú talar Frjálslyndi flokkurinn eingöngu um Framsóknarflokkinn og málefni útlendinga. Það er sök sér með Framsóknarflokkinn en mér hugnast illa þau sjónarmið og þær áherslur sem Frjálslyndi flokkurinn ætlar að leggja í málefnum útlendinga í komandi kosningabaráttu. Með því að daðra við útlendingahatur, m.a. á grundvelli sjúkdóma eða sakaferils manna, er verið að færa stjórnmálaumræður á Íslandi niður á lægra plan en áður hefur þekkst og ég vil biðja ágætan formann Frjálslynda flokksins, hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson, í fullri einlægni að feta ekki frekar þennan veg og leggja ekki upp í þessa feigðarför.

Hæstv. forseti. Mikið hefur verið gert úr mögulegu samstarfi stjórnarandstöðuflokkanna eftir kosningar þótt það hafi verið brösótt fram til þessa á þinginu. Þess vegna verða Samfylkingin og Vinstri grænir að svara því afdráttarlaust hvort þau styðji þessa stefnu Frjálslynda flokksins í útlendingamálum.