133. löggjafarþing — 61. fundur,  29. jan. 2007.

landsþing Frjálslynda flokksins og stefna í innflytjendamálum.

[15:09]
Hlusta

Sæunn Stefánsdóttir (F):

Herra forseti. Já, það urðu ýmis pólitísk tíðindi um helgina en það voru einkum ein þeirra sem ollu mér, og ég held örugglega fleirum, áhyggjum og hreinlega depurð. Frjálslyndi flokkurinn hefur undanfarnar vikur og mánuði daðrað við stefnu í málefnum innflytjenda sem við höfum sem betur fer hingað til borið gæfu til að vera að mestu laus við í íslenskum stjórnmálum, stefnu sem elur á tortryggni og andúð í garð þess harðduglega fólks sem hingað kemur og leggur okkur lið í íslensku samfélagi.

Við eigum alls ekki að forðast þessa umræðu um málefni innflytjenda og hvernig við getum staðið vel að aðlögun þeirra. Þvert á móti og einmitt í þeim tilgangi hefur ríkisstjórnin nú samþykkt stefnumótun sína um aðlögun innflytjenda, stefnu sem unnin var af innflytjendaráði og verður að sjálfsögðu rædd á vettvangi þingsins og í þeim eðlilega farvegi sem mér finnst að hún eigi að fara. Ég hef viljað kalla orðræðu frjálslyndra daður við fyrrnefnda stefnu og það vakti mikla andstöðu og umræður hreinlega í samfélaginu þegar hún kom fyrst upp. (Gripið fram í.)

Nú um helgina flutti formaður, ef ég fæ að halda áfram, Frjálslynda flokksins stefnuræðu sína fyrir komandi kosningar og þar með varð það opinbert, frjálslyndir ætla í komandi kosningum að keyra á tortryggni í garð útlendinga. Við þetta vakna auðvitað ýmsar spurningar: Ætla hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar, hinna flokkanna t.d., að leiða hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson og félaga til áhrifa eins og þeir vilja og kom skýrt fram í ræðu hans um helgina? Þar sagði hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson: Við viljum ná þeirri stöðu eftir næstu kosningar að eiga aðild að ríkisstjórn. Við viljum komast í þá stöðu að hafa áhrif og völd til að koma okkar áherslum að í stjórn landsins og löggjöf.

Það er ekki gæfuspor fyrir íslenska þjóð að ala á ótta og andúð í garð þeirra innflytjenda sem hingað sækja. Meðal annars fyrrverandi ritari flokksins og einn af ötulustu talsmönnum hans hefur sagt að stefna flokksins geri flokkinn holdsveikan í stjórnarsamstarfi. (Forseti hringir.) Ábyrgð þeirra sem leiða slíka aðila að (Forseti hringir.) stjórnarsamstarfi er mikil.

(Forseti (BÁ): Ræðumenn eru áminntir um að virða þann stutta tíma sem gefinn er í þessari umræðu.)