133. löggjafarþing — 61. fundur,  29. jan. 2007.

landsþing Frjálslynda flokksins og stefna í innflytjendamálum.

[15:13]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Það er margt sem þokan hylur, þar á meðal er kjörkassi Frjálslynda flokksins og þar á meðal er það hvernig 2.000 undirskriftir verða að 1.432 atkvæðum þannig að við skulum bara fara í sameiginlega rannsóknarferð um þessi svæði til að kanna það.

Það er athyglisvert að talsmenn Framsóknarflokksins í þessari umræðu hafa einbeitt sér að árásum á Frjálslynda flokkinn og notað hann sem eins konar billjardkúlu til að ráðast á stjórnarandstöðuna í heild. Þeir hafa hins vegar ekkert rætt um eigin stefnu, ekkert rætt um þá glæsilegu stefnu sem Magnús Stefánsson kynnti í síðustu viku utan þingsala. Það er kannski eðlilegt því að sú stefna er fyrst og fremst fögur orð þegar farið er í hana, hvert orðið öðru fegurra. Við þau fögru orð eru ekki fest nein fyrirheit, engin framkvæmdaáætlun, engir peningar nema þær 100 millj. sem hæstv. menntamálaráðherra, sem er ekki í salnum af einhverjum ástæðum, (Gripið fram í.) kastaði fram sem viðbragði einmitt við innflytjendaumræðu hér fyrr í vetur. Það er í raun og veru ekki neitt sem ríkisstjórnin hefur sett fram í stefnu sinni um innflytjendamál, ekki nokkur skapaður hlutur nema fögur orð. En ríkisstjórnarinnar er einmitt það að festa þau fögru orð niður með framkvæmdaáætlun og með fjármunum. Fyrir vanrækslu sína í innflytjendamálunum þau ár sem kjörtímabilið hefur staðið og í raun og veru lengur hefur ríkisstjórnin gefið færi á skoðunum af því tagi sem þingmenn Framsóknarflokksins eru að gagnrýna. Það er þeirra að taka ábyrgð á því hvernig út af fyrir sig skiljanlegar og eðlilegar skoðanir í samfélaginu beinast í þann farveg sem þeir eru hér að gagnrýna. (Gripið fram í.)