133. löggjafarþing — 61. fundur,  29. jan. 2007.

landsþing Frjálslynda flokksins og stefna í innflytjendamálum.

[15:17]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er svolítið tæpt að hafa tvær mínútur til að gera grein fyrir stefnu Frjálslynda flokksins í innflytjendamálum. Ég skal þó reyna að tæpa á því sem var samþykkt á landsþingi okkar um helgina, okkar geysilega fjölmenna landsþingi sem við vorum afar ánægð með og tókst að framkvæma þótt þangað kæmu reyndar 300 fleiri en okkur björtustu vonir gerðu ráð fyrir. Það er von að framsóknarmönnum svíði það. Í þeim röðum (Gripið fram í.) voru líka fyrrverandi framsóknarmenn sem þú ættir kannski aðeins að eiga orðastað við, hv. þingmaður.

Hér segir, með leyfi forseta, í ályktun frá landsþinginu:

„Frjálslyndi flokkurinn metur mikils vinnuframlag erlends fólks við uppbyggingarstarf í íslensku samfélagi síðustu missirin. Margt af þessu fólki mun dvelja hér langdvölum og ber samfélaginu skylda til að veita því stuðning og hjálp til að aðlagast íslensku samfélagi, m.a. með íslenskukennslu. Frjálslyndi flokkurinn telur afar nauðsynlegt að stjórnvöld hafi fullt eftirlit með komu erlends verkafólks inn á vinnumarkaðinn og tryggi að réttur þess sé virtur og aðbúnaður mannsæmandi. Flokkurinn telur að fólk sem hingað kemur eigi að geta notað sína menntun og fagþekkingu á innlendum vinnumarkaði, enda sé fullgildum skírteinum framvísað. Frjálslyndi flokkurinn mun beita sér fyrir því að undanþága sú sem samið var um í EES-samningnum varðandi innflutning verkafólks frá aðildarríkjum EES verði nýtt og innflutningur takmarkaður í samræmi við ákvörðun íslenskra stjórnvalda hverju sinni.

Yfirvöld verða á öllum tímum að hafa stjórn á því hverjir og hvað margir innflytjendur koma til landsins. Frjálslyndi flokkurinn varaði á Alþingi við afleiðingum þess að nýta ekki undanþáguákvæði um frjálst streymi fólks frá nýjum aðildarlöndum Evrópusambandsins til landsins. Ríkisstjórnin neitaði að hlusta á þau varnaðarorð sem þingmenn Frjálslynda flokksins höfðu uppi, auk þess sem ríkisstjórnin vanrækti að marka stefnu í málefnum innflytjenda.

Íslenskt þjóðfélag er að breytast í fjölmenningarþjóðfélag og er afar mikilvægt að nýir borgarar samlagist samfélaginu og kynnist menningu þjóðar og tungu.“

Hæstv. forseti. (Forseti hringir.) Ég vona að þér sé nú rórra, (Forseti hringir.) hv. þingmaður.