133. löggjafarþing — 61. fundur,  29. jan. 2007.

fátækt barna og hagur þeirra.

184. mál
[15:48]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Skýrsla sú sem við hér ræðum er sannarlega takmörkuð eins og kom fram í máli síðasta ræðumanns, eins af hv. skýrslubeiðendum, þar sem ljóst er að talsvert mörgum spurningum sem skýrslubeiðendur lögðu fram er enn ósvarað. Sömuleiðis gerir hæstv forsætisráðherra grein fyrir því hversu takmörkuð hún er út frá aðferðafræðilegum sjónarmiðum.

Nú finnst mér að við eigum ekki að flækja okkur í aðferðafræðilegri pólitík eða aðferðarfræðilegum fyrirvörum þegar við ræðum stöðu barna á Íslandi með tilliti til fátæktar. Ég get svo sem sagt að ég láti þessar skilgreiningar í sjálfu sér ekki þvælast fyrir mér sem slíkar. Mér finnst skipta meginmáli að við komumst að orsökum þess hvers vegna finnast í okkar samfélagi börn sem segja má að lifi undir fátæktarmörkum. Hverjar eru orsakir þess að ríkt velferðarsamfélag á borð við hið íslenska samfélag okkar geti ekki staðið betur við bakið á börnunum sínum en svo að innan okkar velmektarsamfélags skuli þau finnast sem eru fátæk?

Hæstv. forsætisráðherra gerir talsvert úr því, eins og hæstv. fjármálaráðherra hafði raunar gert áður, að könnunin sem að baki skýrslunni liggur mæli í sjálfu sér ekki fátækt í samfélaginu heldur einhvers konar tekjudreifingu og gefi því ekki alls kostar rétta mynd af ástandinu. Mér finnst þetta líka umræða um keisarans skegg. Mér finnst nóg að vitna til fræðimanna á þessu sviði sem hafa gefið okkur upplýsingar sem höfum verið að reyna að kynna okkur þessi mál til hlítar. Sagt hefur verið að þetta séu vísbendingar um að þetta sé tímabundið hlutskipti fjölskyldna. Fræðimenn hafa gefið okkur vísbendingar um að svo sé ekki.

Ég vil fá að vitna hérna til orða Hörpu Njáls félagsfræðings sem um þessar mundir vinnur að doktorsritgerð um lífsskilyrði og fátækt barnafjölskyldna og barna sem hefur verið gerð grein fyrir að nokkru marki í fjölmiðlum upp á síðkastið. Hún segir að samkvæmt sínum niðurstöðum hafi hún miklar efasemdir um þá fullyrðingu sem finna megi í þessari skýrslu að fátækt sé oft tímabundið ástand því rannsóknir hennar sem eru yfirgripsmiklar sýna fram á hið gagnstæða sem er mikilvægt í þessari umræðu, virðulegi forseti.

Harpa Njáls segir miklar líkur á því að fátækt haldist í fjölskyldum kynslóð eftir kynslóð sé ekkert að gert. Hún segir að börn fátækra foreldra á Íslandi virðist lenda sjálf í fátækt í framtíðinni vegna skorts á nægum stuðningi, vegna skorts á menntun og vegna skorts á sjálfstrausti. Hún segir að miklu skipti um þessi örlög brotin sjálfsmynd einstaklinganna. Ég er sammála því að það sé hér faktor sem eigi að skoða og það vegi þungt í þessum málum.

Síðan er spurningin um það hvort að hin stórfellda hækkun barnabóta, eins og hæstv. forsætisráðherra getur um, skipti í raun og veru sköpum í þessu tilfelli. Þá langar mig aftur til að vitna til ummæla Hörpu Njáls í þeim efnum. Hún segir að vissulega geti markvissar stjórnvaldsaðgerðir haft verulega mikið að segja í þessum efnum, og hæstv. forseti, ég er sammála því. Hins vegar nefnir Harpa í því samhengi að skerðingarmörk tekna hafi afgerandi áhrif á fjölda foreldra sem fái óskertar barnabætur. Hún nefnir máli sínu til stuðnings tölur um það hversu fáir einstæðir foreldrar sem eru undir eðlilegum framfærslumörkum í tekjum, fái óskertar barnabætur. Hún leggur ríka áherslu á það í rannsóknum sínum að við hættum skerðingarmörkum barnabóta og hversu mikið það mundi bæta hag þeirra barna sem verst eru sett í samfélaginu.

Harpa Njáls tekur fram að samkvæmt sínum niðurstöðum þyrfti að miða skerðingarmörk tekna hjá einstæðu foreldri við lágmarksframfærslu og því hækka mörkin úr 54 þús. kr. eins og þau voru þegar rannsókn hennar í gerð í 190 þús. kr. á mánuði eigi barnabæturnar hafa eitthvað að segja og vera raunverulegur stuðningur. Hún minnir okkur á að Ísland sé eina Norðurlandið þar sem barnabætur eru tekjutengdar því að hinum Norðurlöndunum er gert ráð fyrir því að barnabæturnar séu stuðningur við barnið, óháð fjárhag foreldra.

Virðulegi forseti. Fleiri rannsóknir eru gerðar þessa dagana um nákvæmlega þessi atriði. Það hefur verið sagt frá því í fréttum upp á síðkastið að Rannsókn og greining sem starfar innan vébanda Háskólans í Reykjavík hafi ásamt menntamálaráðuneytinu unnið rannsókn um ungt fólk 2006. Í þeirri könnun koma í ljós alvarlegar niðurstöður með tilliti til þessarar skoðunar á fátækt íslenskra barna. Meðal þess sem þar kemur fram er að 63,5% þeirra ungmenna sem stunda nám í 9. og 10. bekk grunnskóla stundi nær aldrei íþróttir með íþróttafélagi og að þessi prósenta taldi fjölskyldur sínar vera verr settar, verr staddar fjárhagslega, en aðrar fjölskyldur. Það kemur líka fram í þessari könnun að unglingar sem töldu sig komna af verr stæðum heimilum séu ólíklegri til að taka þátt í öðru skipulegu tómstundastarfi en börn sem töldu fjölskyldur sínar vera betur eða svipað settar og aðrar. Vísbendingarnar eru því að koma fram á fleiri en einum stað.

Eitt þeirra mála sem við höfum verið að fjalla um hér á þinginu og við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði höfum lagt mikla áherslu á í okkar pólitík er að hluti af þeirri stefnu sem hefur verið keyrð varðandi gjöld í opinbera kerfinu og þjónustugjöld ýmiss konar, til dæmis ýmis dulin gjaldtaka í skólakerfinu, geti skipt sköpum í þessu sambandi. Þess vegna höfum við lagt ríka áherslu á gjaldfrjálsan leikskóla og það sem er ekki síður mikilvægt, gjaldfrjálsan grunnskóla því eins og málum er nú háttað þá er innheimt gjald fyrir hádegismat barnanna. Það er innheimt gjald fyrir frístundaheimilin. Fjöldinn allur af duldum gjaldtökum er í þessu kerfi, að ekki sé talað um kostnað vegna bókakaupa og ritfanga.

Það hlýtur að vera pólitískt baráttumál stjórnmálahreyfinga að felld verði niður öll gjaldtaka í grunnskólakerfinu þannig að girt verði fyrir það að einungis börn efnameiri fjölskyldna geti verið raunverulegir þátttakendur í íþróttastarfi eða öðru tómstundastarfi grunnskólabarna. Í þessum málum er pólitík þátttöku og jafnaðar lykilatriði. Það skiptir verulegu máli að við stundum hér pólitík sem byggir á því að börn eigi jafnan rétt til þátttöku í lífinu og í samfélaginu burt séð frá efnahag foreldra. Og ég kem aldrei til með að sætta mig við, eða við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, að það verði gert á forsendum ölmusu þar sem börn verði merkt fátækum foreldrum sínum með því að setja á þau merkimiða og láta þau sækja um fjárhagslega aðstoð. Þetta á að vera skilyrðislaus krafa. Börn í íslensku samfélagi eiga ekki að vera merkt fátækum foreldrum sínum. Þau eiga ekki að þurfa að búa við fátækt.