133. löggjafarþing — 61. fundur,  29. jan. 2007.

fátækt barna og hagur þeirra.

184. mál
[15:57]
Hlusta

Dagný Jónsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Hér er hreyft við máli sem varðar okkur öll og samfélagið allt, máli sem er mikilvægt að við ræðum af alvöru og stillingu. Efnahagsmál, velferðarmál og atvinnumál eru hliðar á einum og sama þríhyrningnum og við megum aldrei missa sjónar á því að þessir þrír þættir verða að vinna saman viljum við byggja hér upp gott samfélag til frambúðar. Við Íslendingar höfum borið gæfu til þess. Samanburður við aðrar þjóðir er okkur afar hagstæður. Meiri fjármunir en nokkru sinni fara nú til velferðarmála sem gefur okkur aukið svigrúm til þess að halda áfram að efla samhjálpina sem við erum öll sammála um að sé mikilvægt hlutverk ríkis og sveitarfélaga.

Þrátt fyrir þá velgengni sem við erum öll sammála um að við búum nú við þá megum við ekki sofna á verðinum. Við megum ekki gleyma þeim sem minna mega sín og þurfa af einhverjum ástæðum á samfélagslegri aðstoð að halda.

Ég vil minna hér á mikilvæg skref sem stigin hafa verið undanfarin missiri við uppbyggingu nýs tekjutengds atvinnuleysisbótakerfis, ný lög um vinnumarkaðsaðgerðir sem ætlað er að efla starfsendurhæfingu og síðast en ekki síst uppbyggingu í þágu geðfatlaðra.

Þetta eru allt gífurlega mikilvæg mál og rauði þráðurinn í gegnum þau er virðingin fyrir einstaklingnum og framlagi hans. Stefnt er að því að þeir sem standi höllum fæti í samfélaginu geti komist aftur til þátttöku eftir því sem nokkur kostur er. Það hlýtur að vera markmið sem við öll erum sammála um að vinna beri að og ég er stolt af því að hafa komið að þessum verkefnum með virkum hætti.

Evrópusambandið nefnir árið 2007 ár jafnra tækifæra. Félagsmálaráðuneytið hefur ákveðið að taka fullan þátt í því ári með fjárframlögum og þátttöku í margvíslegum verkefnum. Þegar er hafinn undirbúningur að þeim í ráðuneytinu og með ýmsum öðrum aðilum. Mér er kunnugt um að í tengslum við Evrópuárið hefur félagsmálaráðherra lagt áherslu á að sjónum verði beint að mismunandi aðstæðum barna í samfélaginu, aðstæðum einstæðra foreldra og fjölskyldna þeirra og aðstæðum innflytjenda.

Félagsmálaráðherra er meðal annars að láta fara yfir það hvort og þá hvernig megi vinna sérstaka aðgerðaáætlun í þágu barna hér á landi. Aðgerðaáætlun til að bæta hag barna yrði að vinnast með sveitarfélögum og gæti falið í sér að skoðaðar yrðu heildstæðar lausnir, svo sem varðandi gjaldfrjálsan leikskóla, skólamáltíðir og skóladagvist. Allt eru þetta atriði sem mikið hefur verið rætt um á vettvangi stjórnmálanna.

Einnig væri hugsanlegt, virðulegi forseti, að huga að sérstökum húsaleigubótum fyrir þennan hóp og öðrum aðgerðum í gegnum félagsþjónustu sveitarfélaga. Þegar hafa nokkur sveitarfélög mótað sér stefnu í þessum efnum og ræða þar málið heildstætt við Samband íslenskra sveitarfélaga. Þá hefur hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra Jón Sigurðsson lýst því yfir í umræðum á Alþingi að hann muni skipa nefnd sem fjalli um skuldaaðlögun hér á landi. Allt hefur þetta áhrif á stöðu þeirra sem verst eru settir og stuðlar að því að aðstæður barna og barnafjölskyldna verði jafnaðar.

Mér finnst sjálfri óþolandi að börn alist upp við kjör sem hamla getað þroska þeirra og möguleikum á innihaldsríku lífi. Mér finnst sjálfsagt að virkar forvarnir séu ætíð til staðar þegar grunur vaknar um að hætta sé á ferðum. Félagsmálaráðherra hefur lagt áherslu á forvarnir og ný forvarnastefna mun líta dagsins ljós á næstu vikum sem unnin hefur verið undir forustu Ingibjargar Pálmadóttur, fyrrverandi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra. Mér finnst að við eigum að breyta sýn okkar á þessi mál. Það er sárt að sjá á eftir ungu fólki sem ekki fær að vaxa og dafna.

Það er í mínum huga fáránlegt að halda því fram að hér sé allt í kaldakoli, þvert á móti hafa almenn lífskjör batnað stórlega hér á landi undanfarna áratugi. Um það er ekki deilt. Við eigum, eins og ég sagði áðan, hins vegar alltaf að vera vakandi fyrir þeim sem standa höllum fæti og það höfum við verið og munum vera. Við Íslendingar erum þekktir fyrir það að standa vel saman þegar á reynir. Áður voru það hrepparnir og orð eins og hreppsómagi heyrðust þá manna á meðal. Núna er talað um að veita þjónustu og allt yfirbragð á félagslegri þjónustu og þjónustu á vegum ríkisins hefur gjörbreyst til batnaðar. Við eigum að hafa reglurnar okkar skýrar og gagnsæjar og aðgengilegar öllum borgurum þessa lands burt séð frá því af hvaða ástæðum þeir þurfa að leita sér aðstoðar.

Virðulegi forseti. Sú skýrsla sem hér er til umræðu er um margt merkileg. Ég vil þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir yfirferð á henni hér áðan og upphafsmönnum þess að beiðnin var lögð fram á Alþingi.

Eftir yfirferð þessarar skýrslu er það svo að með þeirri aðferðafræði sem notuð er og stuðst við, þ.e. aðferðir OECD, þá lenda alltaf einhverjir í flokki fátæktar, alveg sama hvernig þjóðfélagið er því fólk með lægstu launin eru eðlilega lengst frá miðgildinu sem flokkar það fólk í hópi fátækra samkvæmt aðferðafræðinni. Við skulum taka mark á þessum tölum sem fram koma. Kaupmáttur og lífsgæði hér á landi eru með því besta sem þekkist.

Ég vil í lokin, virðulegi forseti, vitna í orð Þorvaldar Víðissonar miðborgarprests. Hann segir í pistli ár sem hann fjallar um þessi mál nú rétt fyrir jól, með leyfi forseta:

„Kannski er farsælasta fjárfestingin í dag að gefa börnunum tíma. Því börnin verða ekki að eilífu börn. Þau verða komin á legg og orðin fullorðin og verða mörg foreldrar sjálf áður en við vitum af.“