133. löggjafarþing — 61. fundur,  29. jan. 2007.

fátækt barna og hagur þeirra.

184. mál
[16:03]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Fl):

Herra forseti. Við erum að ræða um skýrslu forsætisráðherra um fátækt barna og hag þeirra. Eins og fram hefur komið er skýrslan til komin vegna beiðni hv. þm. Helga Hjörvars o.fl. Það vekur athygli hversu langan tíma tók að vinna skýrsluna en hitt vekur jafnvel enn meiri athygli hversu oft þurfti að biðja um hana. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem slík beiðni var lögð fram og ekki í annað sinn. Hver ástæðan er fyrir því get ég aðeins giskað á að sé áhugaleysi að skoða þetta málefni. Ef um áhugaleysi er að ræða er kannski ekki skrýtið að ríkisstjórnin hafi ekkert brugðist við þessu alvarlega ástandi, hvorki fyrir né eftir útkomu skýrslunnar.

Við lestur skýrslunnar um fátækt barna fær maður á tilfinninguna að höfundar eða höfundur hafi viljað draga úr því slæma ástandi sem skýrslan í raun lýsir. Það er gert með því að efast um eigin niðurstöður vegna ýmissa vandkvæða við gagnaöflun, úrvinnslu og viðmiðanir. Ef skýrsluhöfundar telja það möguleika að skýrslan sýni vandann meiri en hann í raun er geta þeir jafnvel opnað þann möguleika að vandinn sé í raun mun meiri en hann er, þ.e. hún sýni ekki nema hálfan sannleikann, að fátæktin sé í raun mun meiri en fram kemur hér. Engin ástæða er til að fegra niðurstöður skýrslunnar eins og mönnum hættir því miður til, en eins og hæstv. forsætisráðherra sagði má alltaf gera betur. Vonandi er þessi umræða hvatning til þess.

Eins og fram hefur komið var ekki öllum spurningum svarað en hvað segir skýrslan okkur í raun? Hún segir m.a. að þessi athugun á fátækt barna á Íslandi sé frumvinna, þ.e. sambærileg vinna hefur ekki farið fram áður, og ég tel rétt að svona skýrsla sé unnin á hverju ári. Maður veltir fyrir sér: Hvernig var þetta árið 2006? Hvernig var þetta árið 2005? Hefur orðið fjölgun, hvert stefnir?

Í skýrslunni er fátækt skilgreind þannig, með leyfi forseta:

„Í fátækt felst að foreldrar hafa ekki efni á að veita börnum sínum þau lífsgæði sem vilji er til og nauðsynleg eru talin.“

Í þriðja lagi kemur fram í skýrslunni að 6,6% barna bjuggu við fátækt á árinu 2004. Þetta þýðir að 4.634 börn hafi búið við fátækt árið 2004. Þetta eru sláandi tölur, herra forseti, sem ekki er hægt að stinga undir stól.

Í fjórða lagi kemur fram að Ísland sé í hópi þeirra ríkja innan OECD þar sem fátækt barna mælist hvað minnst. Þrátt fyrir það eru tæplega fimm þúsund börn sem lifa við fátækt á Íslandi.

Í fimmta lagi kemur fram í skýrslunni að í Danmörku og Noregi mælist fjöldi barna sem lifa við fátækt 2–3,5%, sem sagt helmingi lægri en hér. Jafnframt kemur fram að börn einstæðra foreldra, yfirleitt mæðra, eru líklegust til að lifa við fátækt. Sum börn lenda ekki í þessum hópi af því að foreldrar þeirra leggja svo hart að sér við öflun heimilistekna, þ.e. við langan vinnudag. Skýrslan er að segja okkur að laun sumra þjóðfélagshópa séu það lág að til að forðast fátækt þurfi foreldrar að vinna myrkranna á milli til að barnið búi ekki við fátækt. Er það gott fyrir uppeldið?

Skýrslan sýnir jafnframt verulega fjölgun fátækra barna ef borin eru saman árin 1994 og 2004. 4,8% 1999 upp í 6,6% 2004. Ef við reiknum þetta blákalt, herra forseti, erum við að tala um aukningu upp á 37,5%.

Samkvæmt skýrslunni er hægt að draga úr fátækt með áhrifum skattkerfisins, með vaxtabótum og barnabótum. Það eru því til lausnir ef menn vilja. Skýrslan gefur vísbendingar um áhættuþætti, þ.e. hvaða aðstæður eru líklegastar til að barn búi við fátækt. Þar af leiðandi bendir hún jafnframt á hvar aðstoðar er þörf og hvar þarf að leysa vandann. Gefið er í skyn í skýrslunni um fátækt að yfirleitt sé um skammtímavanda að ræða. Það hljómar jákvætt, herra forseti, en það gefur samt enga heimild til aðgerðaleysis.

Ég hef farið yfir nokkur atriði í skýrslu um fátækt barna á Íslandi árið 2004. Í mínum huga er ástandið slæmt og ekki sæmandi einni af ríkustu þjóðum heims. Það eru um fimm þúsund börn sem talið er að þurfi að búa við fátækt. Ég segi „þurfi“ að búa við fátækt því að það er að sjálfsögðu ekki val þessara einstaklinga að búa við fátækt. Það eru aðstæðurnar sem segja svo til um, aðstæður sem oft er hægt að breyta með aðstoð samfélagsins en til þess að svo verði þarf vilja ráðamanna. Við skulum ekki gleyma því að að baki hverju barni er foreldri eða fjölskylda sem þýðir að fjöldi þeirra sem búa við fátækt á Íslandi er margfalt sú tala sem kemur fram í þessari skýrslu.

Fróðlegt verður, herra forseti, að sjá næstu skýrslu fyrir árið 2005, fyrir árið 2006. Er fátækum að fækka á Íslandi eða fer þeim fjölgandi? Það er á ábyrgð okkar að grípa inn í vandann varðandi framtíðina. Fortíðin er að hluta á ábyrgð ríkisstjórnarflokkanna sem með beinum eða óbeinum hætti hafa stuðlað að aukinni misskiptingu í samfélaginu, en framtíðin, herra forseti, er á ábyrgð okkar allra.

Hægt er að sporna við fjölgun fátækra t.d. með aðgerðum sem Alþýðusamband Íslands lagði til í skýrslunni Velferð fyrir alla, sem var lögð fram árið 2003 og þær tillögur voru m.a. kynntar á fundi með formönnum og fulltrúum stjórnmálaflokkanna þar sem þeir tóku undir að brýnt væri að hrinda tillögum ASÍ í framkvæmd. Hefur það verið gert? Til þess að svo geti orðið þarf að vera vilji hjá stjórnvöldum. Það er vilji hjá okkur í Frjálslynda flokknum og stjórnarandstöðunni. En hvað með Framsókn og Sjálfstæðisflokkinn?

Í skýrslu um fátækt sem forsætisráðherra skilaði á 130. þingi kemur m.a. fram hvernig misskipting hefur verið að aukast í tíð núverandi ríkisstjórnar. Þar kemur fram að tekjur hinna lægst launuðu hækkuðu um 17% á árunum 1995–2002 en á meðan hækkuðu þau um 45% hjá hinum hæst launuðu. Laun ófaglærðra er ein af rótum vandans þegar fátækt er annars vegar, jafnframt er um að ræða atvinnuleysi og örorku þar sem fólki er haldið niðri með alls kyns skerðingum sem virka eins og fátæktargildrur.

Við skulum ekki gleyma sögum af öðrum löndum um hversu langt fátækt getur leitt börn. Fátæktin bitnar á börnum hér heima, þau geta síður keypt mat í skólanum. Þau geta síður lagt stund á, eins og hér hefur komið fram, íþrótta- og tómstundanám, tónlistarnám o.s.frv. Börn allt niður í fjögra ára aldur þurfa að fara með foreldrum sínum í Fjölskylduhjálpina til að fá fatnað að gjöf. Þau skynja að þau eru komin til að biðja um hjálp. Þetta skerðir sjálfsímynd þeirra og veldur mikilli minnimáttarkennd.

Herra forseti. Ísland getur vart talist velferðarþjóðfélag ef mörg þúsund börn lifa við fátækt. Það er okkur öllum til skammar að tæplega fimm þúsund börn skuli lifa við fátækt á Íslandi.