133. löggjafarþing — 61. fundur,  29. jan. 2007.

fátækt barna og hagur þeirra.

184. mál
[16:52]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Við erum að ræða fátækt og afleiðingu stjórnarstefnu Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Það var athyglisvert að hlýða hér á hv. þm. Sæunni Stefánsdóttur fullyrða að stjórnmál snerust um fólk en áherslur Framsóknarflokksins í síðustu árum hafa verið með þeim hætti að það mætti ætla að stjórnmál Framsóknarflokksins snerust um ríkt fólk. Það birtist m.a. í skattstefnunni.

Hv. þingmaður hreykti sér af því að hækka skattleysismörkin. Hver var ástæðan fyrir því? Ástæðan var eingöngu sú að ASÍ neyddi ríkisstjórnina til að fara í þessa vegferð í fyrrasumar. Það var ekki eitthvað sem ríkisstjórnarflokkarnir gerðu sjálfviljugir, alls ekki. Vegna aðgerða ASÍ hækkuðu skattleysismörkin. Það var ekki það að Framsóknarflokkurinn vildi það, heldur voru framsóknarmenn nauðbeygðir til þess til að halda kjarasamninga og tryggja vinnufrið í landinu.

Hvað varðar hitt atriðið sem hv. þingmaður nefndi hér, lækkun skattprósentunnar, er rétt að vekja athygli á því að ef þetta eina prósentustig hefði verið notað til þess að hækka skattafsláttinn hefði það gagnast betur öllum sem hefðu lægri tekjur en 3,7 millj. í árslaun. Þessir hópar sem við erum að ræða hér um, meðaltekju- og láglaunafólk, hefðu komið betur út ef farin hefði verið sú leið sem Frjálslyndi flokkurinn og stjórnarandstaðan vildi fara, að láta alla skattalækkunina renna í að hækka skattleysismörkin.

Ef stjórnarflokkarnir hefðu gert það er ég líka viss um að þeir væru ekki í þessari vandræðaumræðu gagnvart öldruðum þar sem samspil lágra skattleysismarka og skerðingarreglna lífeyristrygginganna gerir það að verkum að þetta fólk býr við kröpp kjör. Það er staðreynd málsins. Þess vegna eru stjórnarflokkarnir í þessum vandræðum.

Ég vil taka undir ræðu eins stjórnarliðans, ræðu hv. þm. Péturs Blöndals þar sem hann ræddi um að það verði að líta til fleiri þátta. Það er rétt að mörg heimili búa eflaust við kröpp kjör vegna skuldsetningar. Íslensk heimili eru ein þau skuldsettustu í Evrópu þannig að háir vextir sverfa mjög að heimilunum. Sú efnahagsstjórn sem hefur ráðið ríkjum sverfir að íslenskum heimilum.

Hvað er þá til bragðs að taka til að rétta hlut barna sem líða fyrir þessar aðstæður? Við í Frjálslynda flokknum höfum bent á að það sé rétt að tryggja það að börn hafi aðgang að (Forseti hringir.) tómstundastarfi og þurfi ekki að greiða há gjöld vegna kostnaðar sem hlýst í skólastarfi.