133. löggjafarþing — 61. fundur,  29. jan. 2007.

vatnsréttindi vegna Búrfellsvirkjunar.

415. mál
[17:07]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Hæstv. forsætisráðherra gat þess áðan að ríkislögmanni hefði á fyrra þingi, eða þegar málið kom fyrir síðast, ekki þótt þörf á að flytja þetta frumvarp. Mig langar að spyrja hvað hefur breyst í því efni sem leiðir til þess að forsætisráðherra lætur ekki að þeirri ráðgjöf. Hann nefndi réttilega að einhvers konar fyrirheit hefði verið gefið af hálfu ríkisstjórnarinnar. Það sem gerst hefur síðan er auðvitað að samningar hafa tekist um kaup ríkisins á eignarhlutum, sem svo heita, Reykjavíkur og Akureyrar sem eitt sinn voru og það þarf ekki að standa við nein fyrirheit í því efni. Hvað hefur breyst síðan síðast sem eykur þörf á að flytja þetta frumvarp í trássi við ráðgjöf ríkislögmanns?