133. löggjafarþing — 61. fundur,  29. jan. 2007.

vatnsréttindi vegna Búrfellsvirkjunar.

415. mál
[17:13]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel hægt að tryggja réttindi Búrfellsvirkjunar og réttindi Landsvirkjunar með öðrum og viðurhlutaminni hætti en hér er lagt til. Ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Hefur ekki verið kannað á milli umæðna um málið hvort það sé hægt? Mér finnst ekki alveg nóg að hæstv. ráðherra líti svo á að ekki sé talið heppilegt að gera þessa hluti öðruvísi en hann leggur hér til. Mér finnst að þjóðin sem hefur fengið þetta ómetanlega land dæmt sem þjóðlendu eigi heimtingu á að fá skýringu hæstv. ráðherra á því hvort hægt sé að fara aðra leið, því að mér skilst að hér þurfi fyrst og fremst að tryggja réttindi Landsvirkjunar til að halda áfram að framleiða rafmagn í Búrfellsvirkjun. Eða er það eitthvað annað, liggur hér einhver fiskur undir steini? Er þetta spurning um eignarréttinn á landinu frekar en nokkuð annað? Í mínum huga er þetta bara spurning um að Búrfellsvirkjun geti haldið áfram að starfa. Við eigum Landsvirkjun, þjóðin. Við eigum þetta land. Af hverju í ósköpunum má ekki tryggja þessi réttindi með viðurhlutaminni hætti en hér er lagt til?