133. löggjafarþing — 61. fundur,  29. jan. 2007.

vatnsréttindi vegna Búrfellsvirkjunar.

415. mál
[18:25]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. forsætisráðherra kaus að sleppa því að útskýra hvers vegna hann vill ganga lengra í því að afsala réttindum til Landsvirkjunar en gert var áður.

Það liggur fyrir með áliti óbyggðanefndar að gengið muni verða mun lengra með þeim hætti sem hæstv. forsætisráðherra leggur hér til, þ.e. að þetta verði eignarland Landsvirkjunar, en óbyggðanefnd mat að gert hefði verið með þeim samningum og lagasetningum sem fóru fram vegna Landsvirkjunar og nýtingar hennar á orkulindum og landi. Það hlýtur að þurfa að svara því hver rökin eru fyrir þessu.

Á þjóðin að bera skaðann af því að einhverjir lánardrottnar hafi metið það svo að eitthvað sem Landsvirkjun hafði til ráðstöfunar væri í raun og veru ekki eign Landsvirkjunar heldur umráðaréttur til nýtingar?

Ég tel enga ástæðu til þess að menn geri slíka hluti og mér finnst ástæða til að hafa áhyggjur af því ef menn ætla að setja fordæmi sem þetta klárlega er, að breyta þjóðlendu í séreignarland. Þetta er í fyrsta sinn sem menn gera það. Hæstv. forsætisráðherra fór ekkert yfir það í ræðu sinni hvernig hann sæi fyrir sér auðlindir í framtíðinni og hvernig menn ætli að varðveita þær til framtíðar sem eign landsmanna. Ég tel ástæðu til að inna eftir því hver stefna Sjálfstæðisflokksins er í þeim málum. Hæstv. forsætisráðherra svaraði engu um það.