133. löggjafarþing — 61. fundur,  29. jan. 2007.

vátryggingarsamningar.

387. mál
[19:56]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir fór ágætlega yfir þá skoðun sem hæstv. ráðherra setti fram, að hér sé á ferðinni einhvers konar þrenging frá því sem nú er og flutti góð rök fyrir því að sá skilningur sé afar hæpinn, svo ekki sé dýpra í árinni tekið.

Ég nefndi það hins vegar í ræðu minni og velti upp þeim spurningum hvers vegna við skulum ætíð standa frammi fyrir þeim spurningum að löggjafinn sé sí og æ að reyna að takmarka áhættu fjármálafyrirtækja og tryggingafélaga. Ég hef nefnt og það hefur verið nefnt nokkrum sinnum í umræðum á þingi, að bankar njóta afar athyglisverðra sérkjara sem felast í mjög háum vöxtum, verðtryggingu og ábyrgðarmannakerfi. Stundum er sagt að þeir hafi bæði belti og axlabönd.

Ég verð að segja og ítreka þann skilning og tek undir með hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur, að ég skil þetta þannig að með frumvarpinu sé verið að veita vátryggingafélögum ákveðið tækifæri til að afla sér tiltekinna upplýsinga til að takmarka áhættu sína. Þannig skil ég frumvarpið. Ef hæstv. iðnaðarráðherra er með upplýsingar um annað, hvað það er nákvæmlega, en ekki að vísa aðeins til þess að þetta sé einhver millileið, þá er full ástæða til að hlýða á það og við munum fara yfir það í efnahags- og viðskiptanefnd, en ég skil frumvarpið svona.