133. löggjafarþing — 61. fundur,  29. jan. 2007.

hlutafélög o.fl.

516. mál
[20:20]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Tilgangur þessa frumvarps er að innleiða tilskipun Evrópuþingsins og Evrópuráðsins frá 26. október 2005 um millilandasamruna félaga með takmarkaðri ábyrgð. Tilskipunin mun hafa verið tekin upp í samninginn um EES-svæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar síðastliðið haust. Markmiðið með tilskipun um millilandasamruna er að auka samvinnu á innri markaði í Evrópu á grundvelli aðgerðaþjónustu og fjármálaþjónustu og auðvelda millilandasamruna hlutafélaga og einkahlutafélaga sem lúta löggjöf mismunandi EES-ríkja.

Hér er enn eitt dæmi, skilji ég þetta frumvarp rétt, um skyldu okkar til að taka reglur upp í íslenskan rétt vegna skuldbindinga okkar vegna EES-samningsins. Það er rauður þráður í EES-samningnum að tryggð verði einsleitni á innri markaðnum, sem Íslendingar eru sem betur fer aðilar að. Þessi innri markaður hefur fært íslenskum fyrirtækjum ótrúlega mörg tækifæri eins og dæmin sanna. Í raun er mjög skondið og gaman að fara yfir þær mikilvægu breytingar sem náðst hafa í gegn, hvort sem litið er til viðskiptalöggjafar, samkeppnislöggjafar, fjármálalöggjafar eða fjarskiptalöggjafar eða löggjafar á sviði persónuverndar, vinnuréttar og umhverfis. Þær jákvæðu breytingar sem orðið hafa má margar rekja til samstarfs okkar á Evrópuvettvangi. Það væri óskandi, a.m.k. óskar sá þingmaður sem hér stendur þess, að Íslendingar gætu loksins tekið það skref til fulls að ganga inn í Evrópusambandið svo við getum verið aðilar að því samstarfi sem hefur fært okkur svo mikið frelsi, eins og einstaklingar þessa lands hafa kynnst. Það eru þau svið sem EES-samningurinn tekur ekki til þar sem lítið sem ekkert hefur gerst í frjálsræðisátt. Eins og þingheimur ætti að vita er ég afskaplega jákvæður fyrir aðild Íslands að ESB en það er kannski önnur umræða.

Mig langar að spyrja hæstv. viðskiptaráðherra hvort þetta frumvarp gangi á þessu stigi að einhverju leyti lengra en við þurfum að ganga varðandi skyldu okkar til að innleiða þessa tilskipun. Gangi það að einhverju leyti lengra, að hvaða leyti þá? Yfirleitt er löggjöf á sviði Evrópuréttar lágmarksréttindi. Við höfum svigrúm og frelsi til að ganga lengra. Mig langar að spyrja hæstv. viðskiptaráðherra hvort svo sé gert í þessu tilviki.

Mig langar einnig að spyrja hæstv. viðskiptaráðherra hvaða praktísku áhrif þessi löggjöf mun hafa, hvort honum sé kunnugt um, ef við hefðum samþykkt þetta frumvarp áður, hvort það hefði t.d. haft áhrif á íslenskt fyrirtæki sem þetta frumvarp hefði tekið til. Hefðu þessar reglur t.d. haft áhrif á samruna, t.d. milli íslenskra fyrirtækja og erlendra. Hvernig sér hæstv. ráðherra fyrir sér praktísku áhrifin af þessu máli?

Það skiptir miklu máli að fyrirtæki, hvort sem þau eru íslensk eða hvort tveggja, hafi talsverðar heimildir til samruna. Ég geri mér fulla grein fyrir því að samruni leiðir oft til sveigjanleika hjá fyrirtækjum og getur leyst út talsverðan hagnað og hagræðingu. Það eru reyndar til kenningar sem ég man eftir, skýrslur og samantektir um að oft ofmeti menn væntanlegan ávinning af samruna og yfirtökum. Engu að síður þarf þessi heimild sannarlega að vera fyrir hendi. Fyrirtækjum má ekki vera sniðinn of þröngur stakkur þegar kemur að samruna. Á móti þurfum við að gæta okkar á sjónarmiðum sem liggja á bak við samkeppnisréttinn. Það eru takmörk á hve langt fyrirtæki má ganga í átt að samruna eins og þingheimur veit. Það getur líka verið ástæða fyrir samkeppnisyfirvöld hverju sinni að grípa inn í. Varðandi það langar mig að spyrja hæstv. viðskiptaráðherra, í ljósi þess sem leiðir af a-lið 1. mgr. 4. gr. tilskipunar um millilandasamruna, að slíkur samruni geti aðeins farið fram ef samruni er leyfður milli samsvarandi félaga innan lands.

Einnig stendur í greinargerð með frumvarpinu að sömuleiðis leiði af Sevic-dómnum, sem hæstv. viðskiptaráðherra kom inn á áðan, að möguleiki á milli landasamruna takmarkist við tilvik þegar samsvarandi samruni er leyfður innan lands. Mig langaði að spyrja hæstv. viðskiptaráðherra í framhjáhlaupi hvort hann hafi hug á því að breyta þeim þröskuldum sem Samkeppniseftirlitið hefur í samskiptum af samruna. Þetta er umræða sem oft blossar upp, hvort við séum með of lágan þröskuld og hvort Samkeppniseftirlitið hafi heimild til að skipta sér af of litlum samrunum. Það væri áhugavert að vita hvort hæstv. viðskiptaráðherra hefur vilja og pólitíska skoðun á því hvort breyta eigi því að einhverju leyti, sem vel geta verið rök fyrir.

En varðandi hluthafann í íslenska félaginu stendur í greinargerðinni að til að vernda hluta af íslensku félagi sem tekur þátt í millilandasamruna með félagi sem lýtur lögum annars EES-ríkis er í samræmi við ákvæði tilskipunarinnar um millilandasamruna lagt til að hlutar í því félagi sem hættir starfsemi, er lagst hafa gegn samrunum, fái möguleika á eða geti krafist þess að félagið innleysi hluta þeirra. Ástæðan fyrir þessari vernd við millilandasamruna er sú að hluthafar í félagi sem hættir starfsemi eftir millilandasamruna verða hluthafar í félagi sem lýtur lögum annars ríkis. Þessi breyting hefur ekki verið fyrirsjáanleg þegar viðkomandi hluthafi eignast hlut sinn og samsvarandi reglur gildi um hluthafafélag sem skipt er þegar millilandaskipting á sér stað. Ég held að þetta sé afskaplega mikilvægt atriði í frumvarpinu og tilskipuninni, að þetta sé fyrir hendi.

Við sjáum sömuleiðis að reynt hefur verið að tryggja minnihlutavernd í þessu frumvarpi. Hér er sagt að samkvæmt tilskipuninni geti EES-ríki sett ákvæði til að tryggja með fullnægjandi hætti hagsmuni minni hluta eigenda sem hafa lýst sig andsnúna samrunanum Ekki er þó kveðið á um það í tilskipun hvernig vernda eigi viðkomandi hluthafa. Samkvæmt reglugerð um Evrópufélög geta EES-ríki sömuleiðis kveðið á um tryggingu til að vernda með fullnægjandi hætti þá minnihlutaeigendur sem hafa andmælt stofnun Evrópusamfélags með samruna. Í reglugerð eru ekki heldur settar nánari reglur um hvernig verndinni skuli háttað. Þetta er afskaplega mikilvægt og við þurfum að hafa hug á því þegar kemur að lagabreytingum á þessu sviði. Það þarf iðulega að hafa í huga hagsmuni minni hluta í viðkomandi hlutafélagi.

Ef ég náði rétt því sem hæstv. viðskiptaráðherra sagði í framsögu sinni fannst mér hann vera að boða annað frumvarp frá félagsmálaráðherra sem tæki á þessu með einhverjum hætti. Ef það er réttur skilningur þá væri fróðlegt að vita hvenær það frumvarp kemur fram og hvort málin þurfi að einhverju leyti að haldast í hendur í meðförum þessa þings sem hugsanlega gæti verið tilfellið.

Þetta er ágætismál. Það er flókið eins og margt sem kemur frá Evrópusambandinu og svolítið torf að fara í gegnum það. En ég er sannfærður um að félagar mínir í efnahags- og viðskiptanefnd eru mjög spenntir að fá að einhenda sér í regluverk um millilandasamruna og millilandaskiptingar.