133. löggjafarþing — 61. fundur,  29. jan. 2007.

samkeppnislög.

522. mál
[21:01]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kom nú hér upp í andsvari áðan þar sem ég reyndi að bera upp tvær fyrirspurnir til hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra og taldi mig ekki hafa fengið skýr svör við þeim fyrirspurnum.

Ég vil þó ítreka það sem ég sagði hér í upphafi. Ég held að þetta frumvarp sem hér liggur fyrir sé heilt yfir til bóta, það sé þess eðlis að ástæða er til þess að fagna því að það skuli vera komið fram. Einnig er mikilvægt og rétt þegar hæstv. ríkisstjórnin kemur með góð mál að leyfa þeim að njóta þess og nefna það alveg sérstaklega. Við munum síðan fara yfir þetta mál í efnahags- og viðskiptanefnd og koma þá inn á einhver atriði sem hugsanlega kunna að vera þess eðlis að við teljum mikilvægt að gera á því breytingar eða gera athugasemdir við það. En almennt vil ég um þetta frumvarp segja að það er gott og það horfir til framfara.

Mér finnst einnig athyglisvert og gott að í þessu frumvarpi skuli það tekið skýrt fram og þá í athugasemdum með frumvarpinu, öfugt við það sem haldið hefur verið fram hér í umræðu um olíusamráðsmál, að löggjafarviljinn á sínum tíma hafi verið í þá veru, þegar samkeppnislög voru samþykkt, að ekki hafi verið hugmyndir um að einstaklingar kynnu að sæta refsingu vegna brota á þessum lögum.

Í greinargerð með þessu frumvarpi eru þessar hugmyndir slegnar algerlega út af borðinu enda held ég að aldrei nokkrum manni sem sat hér í þingsal — og á ég þá bæði við karlmenn og konur svo það misskiljist nú ekki — hafi til hugar komið að þessar refsiheimildir ættu ekki við um einstaklinga jafnt og fyrirtæki í þessu tilviki. Mér finnst því gott að þetta komi fram. Þetta kemur afar skýrt fram. Ég held að ekki sé hægt að orða það á annan veg en að hafi einhvern tímann einhver getað skapað vafa um þann löggjafarvilja sem þá var uppi þá er það slegið af í dag.

Ég held að það sé gott að hreinsa andrúmsloftið hvað þetta varðar því við fengum hér ekki fyrir margt löngu álitsgerð sem var á þann veg að löggjafarviljinn hafi ekki staðið til þess að einstaklingum yrði gerð refsing og ég fagna því að þetta skuli tekið svo skýrt fram hér enda er sú hugmynd að minni hyggju algerlega fráleit.

Hitt sem ég tel mikilvægt að nefna, og kannski ítreka í framhaldi af því andsvari sem ég átti við hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra áðan, tekur til þess að fyrir tveimur árum eða svo fór mikil umræða fram á hinu háa Alþingi þegar ný samkeppnislög voru samþykkt. Þar gerðum við athugasemdir við ýmislegt og einkum það að við töldum að það væri verið að draga tennurnar úr samkeppnislögum. Við töldum á þeim tíma að þar væri verið að taka undir sjónarmið ýmissa sem á markaði vinna og vildu veikja samkeppnislögin og að í því tilviki hafi hæstv. þáverandi viðskiptaráðherra Valgerður Sverrisdóttir gengið mjög langt.

Eins og ég sagði í andsvari mínu áðan vil ítreka að ég fagna því að þetta mál sé komið til þings. Ég fagna því að hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra hafi ákveðið að koma með þetta frumvarp og þá um leið opna á samkeppnislögin. Ég tel að í efnahags- og viðskiptanefnd verðum við að fara yfir fleiri þætti en þá sem hér koma fram í þessu frumvarpi. Bæði í ljósi reynslunnar, þessarar tveggja ára reynslu sem um ræðir, og eins hins að það er mikilvægt að Samkeppniseftirlitið hafi þau tól og tæki til þess að tryggja að markmið Alþingis, til að mynda með lækkun virðisaukaskatts, nái fram að ganga.

Það kæmi mér því mjög á óvart ef ríkisstjórnin eða fulltrúar hennar hér á þingi, þeir sem styðja ríkisstjórnina muni ekki taka undir þessi sjónarmið og nota tækifærið til þess að skerpa á samkeppnisreglunum, ekki síst vegna ummæla hæstv. fjármálaráðherra sem vill engu eira að eigin sögn til að ná þeim markmiðum sem að er stefnt. Hann telur mikilvægt að skerpa á samkeppnisreglunum. Ég tel gott að í salnum er hv. þm. Pétur H. Blöndal formaður efnahags- og viðskiptanefndar. Hann tekur væntanlega undir þau sjónarmið að mikilvægt sé að hnykkja á þessum reglum treysta þær og styrkja.

Ég vil segja að ég hlakka til þess að taka þetta mál til umræðu í efnahags- og viðskiptanefnd. Nú þegar hefur verið opnað á það að þessum lögum verði breytt. Ég geri fastlega ráð fyrir því að við munum leita leiða til þess að ná saman um breytingartillögur til þess bæði að styrkja þetta mál hér sem almennt ég tel mjög gott og að styrkja samkeppnislögin. Þá er ég ekki í nokkrum minnsta vafa um að hv. þm. Pétur H. Blöndal verður öflugur liðsmaður í þeirri för.