133. löggjafarþing — 61. fundur,  29. jan. 2007.

samkeppnislög.

522. mál
[21:08]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmanni að þetta frumvarp er afskaplega mikil bragarbót frá því sem verið hefur og skýrir ýmislegt. En ég má til með að koma inn á það sem hann sagði að hefði verið fellt út síðast vegna þess að það var dálítið merkilegt.

Gefum okkur að eitthvert fyrirtæki bjóði fram óskaplega ódýra þjónustu og óskaplega góðan rekstur og veiti sífellt betri kjör en öll önnur fyrirtæki á sínu sviði og stækki og stækki í kjölfarið vegna þess hvað það er óskaplega heiðarlegt og gott og stækki svo mikið að það nær nánast öllum markaðnum í heiðarleika sínum og með lágu vöruverði og góðum rekstri.

Eins og kveðið var á um í því frumvarpi var Samkeppnisstofnun heimilt að skipta því upp þó það hefði ekkert gert af sér. Það var það sem menn gerðu athugasemdir við. Spurningin er nefnilega sú hvort fyrirtæki misnota aðstöðu sína. Ég sé enga ástæðu til þess að skipta þeim upp sem ekki misnota aðstöðu sína, ekki nokkra.

Það sem við erum að glíma við í dag hugsanlega á matvælamarkaðnum er að samkeppnin sé ekki virk, þ.e. að menn séu einhvern veginn að nota stöðu sína vegna þess að það er fákeppni á markaðnum og við erum að berjast á móti því. Í því felst samkeppnin að menn séu ekki að hækka verð í skjóli fákeppni eða mikillar eftirspurnar eða einhvers slíks. En það eitt sér, að menn verði stórir vegna þess að þeir bjóða góða þjónustu, eru heiðarlegir, stunda góða samkeppni og bjóða lægsta verð, er ekki ástæða til þess að skipta fyrirtækinu upp.