133. löggjafarþing — 61. fundur,  29. jan. 2007.

samkeppnislög.

522. mál
[21:14]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var stutt og gagnmerk ræða og ágæt sem slík. En þarna féllu orð sem ég eiginlega náði ekki og óska ég eftir að hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra skýri þau. Hann sagði eitthvað á þá leið — og ég leyfi mér að endurtaka það — að mikilvægt væri að lögin væru skilvirk og gegnsæ og að menn vissu fyrir fram hvaða aðgerðir væru þess eðlis að menn gætu átt refsingu yfir höfði sér.

Því vil ég spyrja hæstv. viðskiptaráðherra hvort einhver dæmi þess finnist að fyrirtæki hafi ekki áttað sig á því eða einstaklingar að þeir hafi verið að brjóta gegn samkeppnislögum. Væntanlega er hér verið að eyða einhverri óvissu. Annars hefði hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra ekki orðað þetta á þennan veg. Það er þekkt — það þarf svo sem ekkert að fara í kringum það — það er þekkt að fulltrúar olíufélaganna hafa nefnt það sumir hverjir að þeir hafi ekki verið vissir um hvað mátti og hvað ekki, þrátt fyrir að sumt hafi verið bannað með lögum frá 1978, annað í lögum frá 1992, þegar farið var inn í olíufélögin 2001.

Því hlýt ég að spyrja: Hvaða dæmi á hæstv. ráðherra við þegar hann talar um að eitthvað sé óljóst og kann hugsanlega eitthvað í þessu olíumáli að hafa verið það óljóst að það kunni að vera réttlæting á þessum orðum?