133. löggjafarþing — 61. fundur,  29. jan. 2007.

leit, rannsóknir og vinnsla kolvetnis.

515. mál
[21:25]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis. Frumvarpið er á þskj. 778.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar er falla innan þeirrar meginstefnu sem mörkuð var með setningu kolvetnislaga, nr. 13/2001, en horfa til bóta í ljósi þeirrar reynslu sem fengin er af framkvæmd laganna.

Á undanförnum árum hefur vaknað áhugi bæði erlendra og innlendra aðila á að kanna hagkvæmni nýtingar á kolvetnisauðlindum í íslenskri efnahagslögsögu. Ljóst er að nauðsyn kallar á nánari og gleggri útfærslu ákvæða kolvetnislaga svo að unnt verði að tryggja réttarstöðu þeirra er hafa hagsmuna að gæta. Heildstæð löggjöf veitir ekki einvörðungu aukið réttaröryggi heldur er um leið hvatning fyrir einkaaðila að leggja út í þær kostnaðarsömu framkvæmdir sem leit, rannsóknir og vinnsla kolvetnis á hafi úti augljóslega eru.

Í mars 2006 samþykkti ríkisstjórn Íslands að hefja undirbúning að útgáfu leyfis til rannsókna og vinnslu kolvetnis ásamt vinnu við endurskoðun kolvetnislaga. Til að tryggja faglegan framgang starfsins var komið á formlegum samstarfsvettvangi og vinnuhópar settir á laggirnar. Tekur frumvarp þetta mið af þessu samstarfi ráðuneyta og fagaðila.

Helstu breytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu eru í fyrsta lagi að skýrar er kveðið á um stjórnsýsluhluta laganna, en í núgildandi lögum þykir skorta ítarlegri ákvæði um réttindi og skyldur leyfishafa sem og leyfisveitanda. Lagt er til að iðnaðarráðherra verði heimilt að fela Orkustofnun leyfisveitingu og ákvarðanatöku samkvæmt gildandi lögum. Er Orkustofnun sem fagaðila á sviði auðlinda og orkumála falið það hlutverk sem áður féll beint undir iðnaðarráðherra og mun sérfræðiþekking Orkustofnunar nýtast við framkvæmd laganna á skilvirkari hátt en ella. Valdaframsal til Orkustofnunar er innan þess ramma sem stofnuninni er markaður skv. 2. mgr. 2. gr. laga um Orkustofnun þar sem segir að Orkustofnun skuli annast stjórnsýsluverkefni sem stofnuninni eru falin samkvæmt lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða ákvörðun ráðherra.

Verði frumvarp þetta samþykkt mun Orkustofnun annast alla umsýslu og þjónustu við iðnaðarráðuneytið vegna laganna, þar á meðal taka á móti umsóknum, hafa samskipti við umsækjendur og/eða leyfishafa og undirbúa stjórnvaldsákvarðanir. Í ljósi sérfræðiþekkingar Orkustofnunar og aðstæðna að öðru leyti má gera ráð fyrir að stofnunin sé vel í stakk búin til að taka ákvarðanir um veitingu leyfa og aðrar ákvarðanir sem að þeim lúta. Framsal til Orkustofnunar mun því stuðla að auknum málshraða í samræmi við góða stjórnsýsluhætti. Einnig verður stjórnsýsla kolvetnismála einfaldari fyrir umsækjendur og/eða leyfishafa sem sækja og skila öllum upplýsingum til sama stjórnvalds.

Yfirstjórn laganna verður samt sem áður óbreytt í höndum iðnaðarráðherra, og stjórnvaldsákvarðanir Orkustofnunar sem teknar eru á grundvelli laganna sæta kæru til iðnaðarráðherra. Framsal leyfisveitingarvalds til Orkustofnunar eykur því til muna réttaröryggi umsækjenda og leyfishafa að því leyti að þeir eiga þess þá kost að fá umfjöllun um mál á tveimur stjórnsýslustigum í stað eins.

Í öðru lagi er í frumvarpi þessu skýrar kveðið á um gjaldstofna. Þeir gjaldstofnar sem um ræðir eru þrenns konar, í fyrsta lagi gjald vegna leyfis til leitar að kolvetni, í öðru lagi gjald vegna leyfis til rannsókna og vinnslu kolvetnis og loks í þriðja lagi svokallað svæðisgjald en það er gjald sem leyfishafi greiðir vegna afnota á tilteknu svæði sem leyfi hans nær yfir.

Í þriðja lagi er í frumvarpi þessu kveðið nánar á um leyfi til rannsókna og nýtingar á kolvetni. Ljóst er að slíku stöðluðu leyfi verður ekki komið á nema með skýrri heimild í lögum enda mun slíkt leyfi hafa að geyma ýmis íþyngjandi ákvæði, bæði varðandi leyfishafa og leyfisveitanda. Nefna má sem dæmi ákvæði er varðar gjaldtöku, gagnagrunn og upplýsingaskil, eftirgjöf svæða sem og úrræði og heimildir eftirlitsaðila samkvæmt lögum þessum.

Nauðsynlegt er að eftirlitsaðili leyfa hafi skýrar, ótvíræðar og lögbundnar heimildir til að annast hlutverk sitt og því er lagt til að lögfestar verði heimildir og úrræði Orkustofnunar samkvæmt lögum þessum. Annars vegar er um að ræða heimildir til að annast eftirlitshlutverk sem stofnuninni er falið samkvæmt lögunum. Hins vegar er ákvæði er varðar þau úrræði sem stofnuninni standa til boða telji hún að starfsemi leyfishafa samræmist ekki skilyrðum kolvetnislaga, reglugerðum settum samkvæmt þeim, skilyrðum leyfis eða öðrum heimildum. Með auknu ábyrgðarhlutverki Orkustofnunar þykir einnig rétt að kveða nánar á um þær skyldur sem hvíla á stofnuninni og í frumvarpinu er lagt til ítarlegt þagnarskylduákvæði.

Loks eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á einstaka ákvæðum kolvetnislaga sem nauðsynlegt þykir að lagfæra í ljósi fenginnar reynslu af framkvæmd laganna.

Verði frumvarp þetta óbreytt að lögum telur fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins að útgjöld Orkustofnunar muni aukast um 11 millj. kr. á ári frá og með árinu 2008 vegna ráðningar sérfræðings og viðbótarkostnaðar í tengslum við hann.

Hæstv. forseti. Tillögum þeim sem lagðar eru fram í frumvarpinu er ætlað að bregðast við kröfu um aukið réttaröryggi og um leið að stuðla að einfaldri, skilvirkri og gegnsærri stjórnsýslu. Bæði stjórnvöld og leyfishafar hafa af því ríka hagsmuni að stjórnsýsla kolvetnismála sé bæði skýr og skilvirk og valdmörk stjórnvalda greinileg. Einnig er mikilvægt að stjórnvöld hafi nauðsynlegar og lögmætar valdheimildir til að sinna þeim verkefnum sem þeim eru falin við framkvæmd kolvetnislaga.

Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. iðnaðarnefndar og 2. umr.