133. löggjafarþing — 62. fundur,  30. jan. 2007.

efnahagsmál.

[13:43]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Flestum sem með fylgjast ber saman um að íslenskt efnahagslíf sé níðsterkt. Þar til grundvallar liggja einkum þrjár ástæður, í fyrsta lagi hinn mikli sveigjanleiki hagkerfisins sem mjög hefur aukist á undanförnum árum í kjölfar skipulagsbreytinga sem ríkisstjórnin hefur beitt sér fyrir. Í öðru lagi er gríðarlega sterk staða ríkissjóðs sem hefur stórlega batnað á undanförnum árum þar sem ríkissjóður hefur borgað niður skuldir í stórum stíl og styrkt stöðu sína með ýmsum hætti og í þriðja lagi er það vegna þess að Íslendingar búa við gríðarlegt traust og efnað lífeyrissjóðakerfi. Þetta eru aðalástæðurnar fyrir því að hagkerfi okkar er af flestum talið mjög öflugt.

Formaður Samfylkingarinnar er seinheppin, kemur hér upp á sama degi og bankarnir tilkynna um afkomutölur sínar. Þær tölur eru vitnisburður um þann árangur sem efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar hefur skilað og það er vissulega mjög ánægjulegt að bankarnir skili nú svo miklum hagnaði sem að sjálfsögðu mun skila sér í skattgreiðslum til ríkissjóðs í mjög ríkum mæli. Það er enn fremur ánægjulegt að formaður Samfylkingarinnar skuli nú sjá sérstaka ástæðu til að vitna í Davíð Oddsson, fyrrum formann Sjálfstæðisflokksins, þegar kemur að efnahagsmálum. (Gripið fram í: Ekki gerir þú það.)

Miklar framkvæmdir í tengslum við álver og virkjanir hafa á undanförnum árum auðvitað leitt til ákveðinnar spennu í hagkerfinu. Það hefur reynt á þanþolið í efnahagslífinu, líka vegna þeirra sviptinga sem orðið hafa á íbúðalánamarkaðnum á undanförnum árum. Ég er hins vegar sannfærður um að við erum komin fyrir vind í þessum efnum og það eru rólegri tímar fram undan. Það er líka rétt sem bent hefur verið á, að skuldir tiltekinna hópa í þjóðfélaginu hafa vissulega aukist en það er ekki hægt að taka þá hlið efnahagsreikningsins eina og sér, það verður líka að huga að því hversu mjög eignir þessara hópa hafa hækkað í verði á undanförnum árum og þá væntanlega með varanlegum hætti.

Það er almennt reiknað með því, virðulegi forseti, að sú þensla sem verið hefur sé á undanhaldi og það kemur skýrt fram í nýrri skýrslu fjármálaráðuneytisins um þjóðarbúskapinn. Allir gera ráð fyrir því að verðbólga verði komin niður fyrir eða um það bil ofan í verðbólgumarkmið Seðlabankans um mitt þetta ár og í því felst að sjálfsögðu einnig að það mun draga hratt úr viðskiptahalla og hagvöxtur verður minni á þessu ári en í fyrra. Hann mun síðan taka aftur við sér á árinu 2008 vegna aukins útflutnings. Ég hef aldrei efast um að hagkerfi okkar mundi standa af sér þessa þenslu sem verið hefur og við mundum ná því sem sumir kalla mjúka lendingu, á vondri íslensku. Það er vegna þess að sú efnahagsstefna sem fylgt hefur verið hefur miðað að því að skjóta styrkari stoðum undir hagkerfið sem hefur m.a. birst í því að við höfum breytt alls kyns skipulagi í efnahagsmálum sem hefur aftur á móti styrkt hagkerfið til muna og gert það betur í stakk búið til að mæta tímabundnum sveiflum.

Stjórnarandstöðunni verður tíðrætt um hagstjórnarmistök o.fl. af því tagi. Voru það mistök að búa þannig um hnútana að ríkissjóður væri það aflögufær að hann gæti ekki bara stórlega lækkað skatta á öllum almenningi heldur séð af stórkostlega miklum fjármunum til að bæta kjör aldraðra eins og við höfum fjallað um á þessu þingi? Voru það mistök að búa þannig um hnúta að hægt væri að lækka virðisaukaskattinn til þess að lækka matvöruverð eins og koma mun á daginn 1. mars nk.? Voru það mistök að lækka og fella niður eignarskattinn eins og nú hefur verið gert öllum íbúðareigendum á öllum aldri til hagsbóta? Voru það mistök að hækka barnabæturnar um 60% á árunum 2006 og 2007? (ÖS: Það voru mistök …) Að sjálfsögðu voru það ekki mistök, virðulegi forseti. Afkoma ríkissjóðs hefur aldrei verið betri en hún er nú og það er ástæðan fyrir því að við eigum möguleika á því að ráðast í kjarabætur af þessu tagi, hvort heldur það lýsir sér sem útgjöld fyrir ríkissjóð eða minnkandi tekjur fyrir ríkissjóð vegna skattalækkana.

Þessi gjörbreytta staða er bein afleiðing af þeirri efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar að beita sér fyrir öflugri uppbyggingu atvinnulífsins og bættum kjörum heimilanna. Í kjölfarið hafa orðið hér til mörg öflug fyrirtæki, bæði í hefðbundnum atvinnugreinum og ekki síður á margvíslegum hátækni- og þjónustugreinum. Það hefur svo að sjálfsögðu skilað sér í auknum hagvexti og kaupmáttaraukningu hjá heimilunum. Ef það er eitthvert eitt markmið í stjórnmálum almennt séð sem allir ættu að geta sameinast um er það það að beita ríkisvaldinu til þess að auka kaupmátt heimilanna. Það hefur verið gert í mjög ríkum mæli.

Ég vildi svo að endingu leiðrétta formann Samfylkingarinnar sem heldur því hér fram blákalt, eins og hún hefur gert áður, að ríkissjóður taki til sín 42% landsframleiðslunnar. Ég vil biðja hana að vinna betur heimavinnu sína í þessu efni.