133. löggjafarþing — 62. fundur,  30. jan. 2007.

lokafjárlög 2005.

440. mál
[14:08]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til lokafjárlaga fyrir árið 2005 sem dreift hefur verið á þskj. 562. Uppbygging frumvarpsins er með sama hætti og verið hefur undanfarin ár og uppgjör og ráðstöfun á stöðu fjárheimilda í árslok byggist í meginatriðum á sömu vinnureglum og áður.

Í fylgiskjali II með frumvarpinu er birt yfirlit yfir talnagrundvöll frumvarpsins. Yfirlitið sýnir uppruna allra fjárheimilda ársins 2005 fyrir ríkissjóð í heild og einstök viðfangsefni, þ.e. fluttar stöður fjárheimilda frá fyrra ári, fjárveitingar í fjárlögum og fjáraukalögum, millifærðar heimildir innan ársins og loks breytingar á fjárheimildum vegna frávika ríkistekna samkvæmt þessu frumvarpi til lokafjárlaga. Því næst eru fyrrgreind útgjöld samkvæmt ríkisreikningi og að síðustu staða fjárheimilda í árslok, þ.e. mismunur fjárheimilda og reikningsfærðra útgjalda. Heildarfjárheimildir ársins 2005 námu 327,7 milljörðum kr. en útgjöld samkvæmt reikningi voru 308,4 milljarðar og fjárheimildastaða í árslok er því jákvæð um 19,3 milljarða kr. Í frumvarpinu er að vanda lagt til að stöðufjárheimildir í árslok verði annaðhvort felldar niður sbr. 2. gr. frumvarpsins eða fluttar til næsta árs sbr. fylgiskjal I.

Í 1. gr. frumvarpsins eru lagðar til breytingar á fjárheimildum stofnana og verkefna vegna frávika á ríkistekjum frá áætlun fjár- og fjáraukalaga samanber nánari skiptingu í sundurliðun 1. Nánar tiltekið er leitað eftir heimild Alþingis til breytinga á fjárheimildum með ráðstöfun markaðra skatttekna og annarra ríkistekna stofnana, ýmist í samræmi við það hverjar tekjurnar urðu samkvæmt ríkisreikningi eða hver metin fjárþörf reyndist vera við skil ríkissjóðs á mörkuðum tekjum til stofnana. Almennt gildir að útgjaldaheimildir stofnana hækka hafi lögboðnar ríkistekjur til fjármögnunar útgjaldanna verið vanáætlaðar í fjárlögum en lækka hafi tekjurnar verið ofáætlaðar. Ekki eru þó lagðar til breytingar á fjárheimildum stofnana af þessum sökum í þeim tilvikum þegar ekki er beint samband milli útgjaldaþarfar stofnunar og fjármögnunar á þann veg að sveiflur í tekjum hafi beinlínis áhrif á kostnað. Alls er lagt til að fjárheimildir stofnana hækki um tæplega 935 millj. kr. samkvæmt þessu uppgjöri á fjármögnun verkefna með ríkistekjum.

Í 2. gr. frumvarpsins er sótt um heimild til að fella niður stöðu fjárheimilda í árslok. Er þar bæði um að ræða ónýttar fjárveitingar sem og gjöld umfram heimildir. Nánari skipting á niðurfelldum stöðum fjárheimilda er sýnd í sundurliðun 2. Í heildina tekið er lagt til að niður falli alls 1.848 milljarðar kr. á rekstrargrunni. Á greiðslugrunni nemur niðurfelling 340,7 milljörðum kr. Þessi munur milli reikningsgrunns og greiðslugrunns stafar að stærstum hluta af því að niður falla stöður á fjárlagaliðum sem ekki hafa áhrif á útgreiðslur, svo sem á liðum lífeyrisskuldbindinga og afskrifaðra skattkrafna. Í samræmi við ákvæði 37. og 45. gr. laga um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997, er í fylgiskjali I með frumvarpinu birt yfirlit yfir stöðu fjárheimilda í árslok 2005 sem færast yfir til ársins 2006. Gert er ráð fyrir að í heildina tekið flytjist um 17,4 milljarðar kr. jákvæð fjárheimildastaða yfir til ársins 2006.

Ráðstafanir á stöðu fjárheimilda í árslok byggja á viðmiðunarreglum þar sem einkum er litið til þess hvort útgjöld eru bundin, t.d. af lagaákvæðum eða samningum, eða frekar á ábyrgð tiltekins stjórnsýsluaðila. Í sumum tilvikum kann að vera álitamál hvort eðlilegra sé að fella niður stöðu einstakra fjárlagaliða eða flytja til næsta árs og við gerð sérhvers lokafjárlagafrumvarps eru þessi tilvik metin sjálfstætt. Ræðst niðurstaðan m.a. af því hvort talið sé að viðhafa megi stýringu á útgjöldum liðarins þrátt fyrir að tilefni útgjaldanna séu þess eðlis að þau teljist lögbundin. Tilgangur með yfirfærslu á heimildastöðu yfir áramót er einkum sá að hvetja ráðuneyti og stofnanir til aðhalds og styrkari fjármálastjórnar til lengri tíma litið. Leitast er því við að fækka þeim liðum þar sem staða er að jafnaði felld niður í árslok, a.m.k. í þeim tilfellum þar sem mögulegt er talið að gera megi ráðstafanir til að bregðast við frávikum í útgjöldum. Gera verður ráð fyrir að þessi mál séu stöðugt til skoðunar.

Með því að flytja afgangsheimildir stofnana yfir áramót hefur horfið sú tilhneiging sem gætti í eldra kerfi að forstöðumenn leituðust við að eyða öllum fjárheimildum fyrir árslok. Áætlanagerð hefur batnað og stjórnendur litið til lengri tíma en eins árs við stefnumörkun sína. Þessi breyting hefur þó ekki verið gallalaus því að svo virðist sem sumar stofnanir hafi velt halla af rekstri sínum yfir áramót ár eftir ár og treyst á það að á endanum verði vandinn það mikill að óhjákvæmilegt verði að taka á honum í fjáraukalögum. Ekkert þarf að vera óeðlilegt við það að halli verði á einu ári í rekstri stofnunar enda sé tekið á honum á næsta fjárhagstímabili en þegar halli safnast upp ár eftir ár ber viðkomandi ráðuneyti og forstöðumanni að taka fast á vandanum. Í árslok höfðu 82 fjárlagaliðir uppsafnaðan halla yfir 4% af fjárheimildum og þar af voru 65 þeirra með uppsafnaðan halla yfir 10% af fjárheimildum. Ljóst er að taka verður þennan vanda föstum tökum og mikilvægt er að forstöðumenn og ráðuneyti grípi til aðgerða strax og ljóst er að rekstur stefnir umfram fjárheimildir. Ef til vill þarf að kveða skýrar á um skyldur forstöðumanna fari rekstur tvö ár í röð umfram heimildir. Við undirbúning fjárlaga þurfa ráðuneytin einnig að búa svo um hnútana að tekið sé á vanda þeirra stofnana sem fara ár eftir ár fram úr fjárveitingum, annaðhvort með endurskipulagningu á rekstri eða breytingum í forgangsröðun fjárveitinga.

Ég hef, herra forseti, farið yfir helstu þætti frumvarpsins. Með frumvarpinu eru lagðar fyrir Alþingi niðurstöður úr rekstri ríkissjóðs gagnvart fjárheimildum á árinu 2005 og vísast í því sambandi til greinargerðar í fjáraukalögum og ríkisreikningi um meginatriði í framvindu ríkisfjármálanna og helstu frávik í tekjum og gjöldum. Þá hefur Ríkisendurskoðun einnig lagt fyrir Alþingi skýrslu um endurskoðun ríkisreiknings 2005 og um hana hefur verið fjallað í fjárlaganefnd. Ég tel því ekki ástæðu til að fara yfir einstök atriði í frumvarpinu og legg til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. fjárlaganefndar Alþingis.