133. löggjafarþing — 62. fundur,  30. jan. 2007.

lokafjárlög 2005.

440. mál
[14:31]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þó að það sé óskylt þessu máli þá er sjálfsagt að svara spurningu hv. þingmanns. Síðastliðið sumar komu Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins sér saman um að breyta samningum og hækka launin og töldu það vera rétt spor til að búa til nýjar væntingar um að við værum að fara út úr verðþenslunni. Ríkisstjórn Íslands studdi þær aðgerðir heils hugar. Seðlabanki Íslands var á móti þeim aðgerðum og taldi þar rangar. Ég hef ekki farið leynt með það, hvorki í ræðu né riti, að ég tel þær hækkanir á vöxtum sem Seðlabankinn hefur staðið fyrir síðan, sem eru þrjár ef ég man rétt, hafi verið mjög vanhugsaðar og rangar.