133. löggjafarþing — 62. fundur,  30. jan. 2007.

fjarskipti.

436. mál
[14:40]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Hæstv. samgönguráðherra hefur mælt fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um fjarskipti, nr. 81/2003. Það fyrsta sem kemur upp í hugann er spurningin af hverju við þurfum að breyta lögum um fjarskipti frá árinu 2003 svo snemma, fjórum árum síðar, en það er auðvitað eðlilegt og tímanna tákn um þann mikla hraða sem er í fjarskiptum, fjarskiptaþjónustu og öðru slíku. Þetta eru lög sem við megum reikna með að þurfa að taka oft til endurskoðunar á hinu háa Alþingi, bæta við og fella úr eftir aðstæðum og það er í sjálfu sér mjög jákvætt að slíkt sé gert. Það er því ekki vegna þess að lögin sem hér er verið að leggja til að breyta hafi verið slæm, alls ekki. Það má ekki skilja orð mín þannig.

Eins og fram kom hjá hæstv. samgönguráðherra er megintilgangurinn með frumvarpinu að auka öryggi í fjarskiptum, auka neytendavernd og að styrkja ákvæði laganna sem fjalla um vernd persónuupplýsinga og friðhelgi einkalífsins. Þetta eru fjögur atriði sem vonandi allir á hinu háa Alþingi geta tekið undir þó svo að stundum kastist í kekki og stundum verði uppi ágreiningur um hversu langt skuli ganga á persónuverndina í sambandi við fjarskipti. Kemur þá upp í hugann frumvarp eða lög sem rædd voru fyrir einu eða tveimur árum síðan um hversu langt lögregla geti gengið til að ná í IP-tölur og annað slíkt og um dómsuppkvaðningu og annað. Þetta eru auðvitað hlutir sem eru oft á dálítið gráu svæði og þarf að fjalla um. Þetta eru hlutir sem stundum skarast óþægilega. Stundum ganga menn e.t.v. svolítið inn á persónuverndina sem er þá gert til þess í rauninni að auka, ef svo má að orði komast, persónuvernd í leiðinni gegn alls konar glæpum og slíku. Þarna er því vandratað.

Virðulegi forseti. Þar sem ég sit í samgöngunefnd og frumvarpinu er vísað þangað munum við fjalla um það þar eins og við gerðum með fjarskiptalögin á sínum tíma. Þar verður farið yfir málið á sama hátt og við höfum gert í samgöngunefnd hingað til, kallað eftir umsögnum og öðru. Ég vona að í þessu frumvarpi séu ekkert annað en góðar breytingar miðað við þær tæknibreytingar sem hafa átt sér stað og allt að því tæknibylting.

Það er margt athyglisvert í frumvarpinu eins og t.d. það sem kemur fram í 7. gr. þar sem festa á í lög að hægt verði að fá upplýsingar um staðsetningu á uppruna neyðarsímtala eins og þarna er kveðið á um. Það er auðvitað mjög mikilvægt og verður til mikilla hagsbóta fyrir alla notendur og almenning. Við höfum dæmi um að það hafi skilað sér vel. Við höfum líka dæmi um það að staðsetningar á símum hafi jafnvel orðið til þess að upplýsa glæpi. Það hefur að sjálfsögðu verið gert eftir dómsuppkvaðningu um að fylgjast megi með því. Hérna er kveðið á um staðsetningu á uppruna neyðarsímtala og hvernig það er gert og bundið í lög en hingað til hefur það verið gert með samningi á milli aðila eins og hér hefur komið fram.

Einnig er fjallað töluvert mikið um það slæma við alla þá byltingu og nýjungar sem hafa orðið, sama hvort það er tölvupóstur, SMS- eða MMS-skilaboð, þ.e. þegar hlaðið er á notendur því sem stundum er kallað ruslpóstur og ruslskilaboð. Þótt vafalaust séu margir tilbúnir til að fá skilaboð í gemsana sína, fá SMS-skilaboð með auglýsingum og öðru slíku, eru aðrir sem ekki eru hrifnir af slíku og til þess er einfaldlega merkingin í símaskrá, sama hvort hún er í pappírsformi eða rafrænu formi, að menn virði merkingarnar og þau skilaboð sem þar koma fram um að fólk vilji ekki láta hlaða á sig alls konar skilaboðum, sama hvort þau eru í tölvupósti eða rafrænum skilaboðum.

Virðulegi forseti. Ég held að ekki þurfi að orðlengja þetta meira við 1. umr. Eins og fram hefur komið fer málið til samgöngunefndar og ég er viss um að það verður tekið fljótt og vel fyrir og rætt þar. Ég vona, án þess að ég sé búinn að kemba í gegnum allt málið, að þetta sé gott frumvarp sem verði, eins og megintilgangurinn segir til um, til að auka öryggi í fjarskiptum, auka neytendavernd og styrkja ákvæði laganna sem fjalla um vernd persónuupplýsinga og friðhelgi einkalífsins.