133. löggjafarþing — 62. fundur,  30. jan. 2007.

fjarskipti.

436. mál
[14:59]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Málið er einmitt að það er sett í hendur fjarskiptafyrirtækjanna í fyrstu atrennu að meta það hvað sé nægileg vernd, virkni og gæði IP-þjónustunnar fyrir viðskiptavininn. Mín skoðun er hins vegar að Póst- og fjarskiptastofnun eigi strax að gera mat á því hversu góð verndin, virknin og gæðin eigi að vera, einmitt vegna þess hversu flókið málið er. Það verður því ekki jafnauðvelt að gera leiðréttingar þegar fram í sækir, hvorki fyrir fyrirtæki né einstaklinga.

Ég hef í höndum dæmi um fjarskiptafyrirtæki sem hefur kvartað til Samkeppnisstofnunar vegna dráttar á afgreiðslu kærumála. Annað kærumálið orðið yfir þúsund daga gamalt. Það segir sig sjálft að ef ekki eru í lögum góð og skýr fyrirmæli til að vernda viðskiptavininn, einstaklinginn, þá er þeim mun meiri hætta á að einhvers staðar sé pottur brotinn. Hjá Póst- og fjarskiptastofnun starfa sérfræðingar sem eiga að vinna fyrir almenning. Þeir eiga að starfa fyrir almenning frá fyrstu hendi, ekki einungis vera í einhverjum eftirlitsmálum heldur setja reglurnar frá upphafi.