133. löggjafarþing — 62. fundur,  30. jan. 2007.

vegalög.

437. mál
[17:36]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér er kannski nokkur vorkunn en yfirleitt hef ég litið svo til að í langflestum tilvikum séu sveitarstjórnarmenn vel til þess fallnir að fara með mikið vald og þar á meðal skipulagsvald. En stundum er það ekki á þann veg og það verða deilur á milli sveitarstjórnar og þeirra sem ráða skipulagsmálunum og Vegagerðarinnar. Þá getur komið til ágreinings og í einhverjum tilvikum hefur Vegagerðin kært úrskurði og niðurstöður sem lúta að legu vegar. Frægasta dæmið, alveg spánnýtt, er að Vegagerðin kærði úrskurð skipulagsyfirvalda þar sem lagst var gegn því að þvera firði í Gufudalssveitinni. Hvers vegna var það? Jú, vegna þess að það var alveg skýrt mat þeirra sem komu að þessu þá, m.a. Vegagerðarinnar, að þarna væru umferðaröryggishagsmunir geysilega mikilvægir og þess vegna ætti fremur að fara með ströndinni og þvera firði en að setja vegina yfir hálsa og skapa hættulega vegarkafla með mjög bröttum brekkum.

Ég tek undir það að umferðaröryggismálin eru geysilega mikilvæg þegar við erum að leggja á ráðin um skipulag vegakerfisins og uppbyggingu þess og þess vegna þarf Vegagerðin að hafa býsna sterka stöðu gagnvart skipulagsyfirvöldum til að geta fengið framgengt áformum um betri (Forseti hringir.) og öruggari vegi.