133. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2007.

ákvæði íslenskra laga um hreinsun á strandstað.

[13:35]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ekki er óeðlilegt þó að umræður séu um það þegar tiltekin mengunarógn steðjar að náttúru okkar, ekki síst við strendur landsins og í hafinu. Því er eðlilegt að hv. þingmenn velti fyrir sér hvað sé fram undan í vörnum og aðgerðum til að varna frekari skaða vegna strandsins við Sandgerði.

Ég vil hins vegar hvetja hv. þingmenn til að leggjast ekki eindregið á sveif með þeim útgerðarmönnum eða tryggingafélögum sem reyna með öllum tiltækum ráðum að víkja sér undan ábyrgð. Við þekkjum það frá Víkartindsslysinu, þá skapaðist þar mjög skýr afstaða útgerðarfélagsins sem áttaði sig á þeirri skyldu sinni að fjarlægja og kosta allar aðgerðir til að koma í veg fyrir frekara tjón við ströndina.

Hvað varðar þetta tiltekna mál og vísun til laga þar um er það sameiginleg niðurstaða okkar í samgönguráðuneyti og umhverfisráðuneyti, eins og fram kom hjá hæstv. ráðherra umhverfismála, að lögin um verndun hafs og stranda eru sú löggjöf sem á að taka á skyldum útgerða og tryggingafélaga þegar strand verður. Við höfum því ekki gefið neinn afslátt af þeirri kröfu sem lögin um verndun hafs og stranda gera ráð fyrir og að sjálfsögðu var sú lagasetning afgreidd frá Alþingi til að tryggja okkur fyrir slysum og óhöppum við ströndina eins og þarna er um að ræða.