133. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2007.

ákvæði íslenskra laga um hreinsun á strandstað.

[13:39]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Herra forseti. Það er fullkomlega eðlilegt að taka þessi mál til umræðu, þ.e. siglingar við landið. Á forsíðu Fréttablaðsins í morgun er aðalfréttin einmitt um glæfrasiglingar stórra flutningaskipa við Ísland og sagt að þær séu algengar. Þá vil ég vitna til þeirrar skýrslu sem hv. þm. Kristján L. Möller nefndi, þar sem hvatt er til þess að tekið verði á þessu og sigling stórra skipa verði bönnuð svona nærri landinu.

Í Fréttablaðinu í dag nefnir Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, dæmi um tvö erlend flutningaskip sem hafi á síðustu vikum sýnt mjög mikla glæfrasiglingu við landið: „Það mætti halda að annað skipið hefði ekki verið með sjókort. Það mátti ekkert bregða út af, þá hefðu þeir farið upp í klettana.“ Og hann nefnir nöfnin á þessum stóru skipum, Danica White og Wilson Brake.

Ég spyr hæstv. samgönguráðherra: Ætlar hann að taka á þessu máli, taka á því að banna siglingar svona nálægt landi? Því að þetta er náttúrlega stórlegur skaði og mjög alvarleg umhverfisslys geta orðið ef skipin fara upp í klettana eða stranda.

Georg Lárusson segir að viðbragðstími þyrluáhafnar sé 30 mínútur og flugið taki álíka langan tíma og þessi skip væru því löngu komin upp í klettana við þær aðstæður sem voru þegar skipin sigldu á umræddum tíma. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvað ætlar hann að gera í málinu? Ætlar hann að taka á þessu? Ætlar hann að fara að þeim ráðum sem gefin voru í þeirri skýrslu sem nefnd var áðan? Í umræðunum um Wilson Muuga var einmitt vísað til skýrslunnar og aðgerðaleysis stjórnvalda í kjölfar hennar.