133. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2007.

ákvæði íslenskra laga um hreinsun á strandstað.

[13:43]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Vert er að ræða þessi mál ekki eingöngu út frá siglingaleiðum, þ.e. þau mál er varða öryggi stranda og mengunarvarnir, heldur líka út frá þeim mannskap sem stjórnar umræddum skipum. Það er staðreynd að á mörgum þessara skipa eru erlendir sjómenn, það er nánast ekki eitt einasta flutningaskip skráð í landinu, nema þá Herjólfur. Þetta er í rauninni afleiðing af stefnu ríkisstjórnarinnar sem hefur verið sú að gera fyrirtækjum sem reka þessi skip ekki jafnt undir höfði og í samkeppnisrekstri erlendis, t.d. á Norðurlöndunum. Skattareglunum er ekki breytt. Að vísu eru á sumum þessara skipa „íslensku skipafélaganna“ innlendir yfirmenn en meðan ekki eru íslenskar áhafnir verður engin endurnýjum á þeim yfirmönnum sem stjórna skipunum. Einn þátturinn í þessu er sá þegar verið er að horfa til öryggis hafs og stranda, að þeir sem stjórna þessum skipum séu staðkunnugir og þekki aðstæður þegar siglt er um viðkomandi svæði en ekki að horfa eingöngu til siglingaleiðanna sjálfra. Menntunin hjá þessum mönnum og reynslan af því að sigla á norðurslóðum skiptir ekki síður máli en að vera að merkja siglingaleiðir inn á kort. Og eitt af því sem ríkisstjórnin sem nú situr að völdum hefur ekki hirt um er menntun sjómanna og þetta er komið í algert óefni. Þennan hlut þarf ekki síður að skoða en að horfa eingöngu á hvaða leiðir skipin fara, herra forseti.